spot_img
HomeFréttirFrábær sigur Njarðvíkinga í DHL Höllinni

Frábær sigur Njarðvíkinga í DHL Höllinni

 

Njarðvíkingar mættu í DHL höllina í kvöld tilbúnir í slaginn eftir góðan sigur á Haukum í síðustu umferð og mættu þar heimamönnum sem höfðu einungis tapað einum leik í deildinni í vetur. Eftir skrítinn fyrri hálfleik, þar sem ekkert gekk hjá mönnum að koma boltanum ofan í körfuna þá sigldu Njarðvíkingar framúr. Þeir héldu svo forystunni allann seinni hálfleikinn og þrátt fyrir smá skjálfta í restina var sigur Njarðvíkinga í rauninni aldrei í hættu. Hjá Njarðvíkingum var Björn Kristjánsson með 24 stig og 5 fráköst en hjá KR var Sigurður Þorvaldsson skárstur með 14 stig og 10 fráköst. 

 

Lok á körfunni?

KR-ingar hittu með eindæmum illa í dag og náðu þeim mjög svo vafasama „árangri“ að klikka úr 14 skotum í röð. Frá miðjum fyrsta leikhluta og fram á miðjan annan leikhluta skoruðu KR-ingar ekki eina körfu, utan við eitt víti sem lak niður. Alls liðu rúmlega 9 mínútur á milli karfa hjá heimamönnum, það er næstum heill leikhluti. Lykilmenn KR-inga þeir Brynjar Þór, Pavel og Darri áttu sérstaklega slæman dag og voru samtals 5 af 34 í skotum, sem gerir tæplega 15% skotnýtingu. Aðrir voru svosem ekki að bjóða upp á neina sýningu heldur, en liðið verður að geta treyst á sína bestu leikmenn þegar að á reynir.

 

Vörn, Vörn, Vörn.

Varnarleikur Njarðvíkinga í dag var til algerrar fyrirmyndar, sér í lagi ef litið er til þess hversu lágvaxið lið þeir bjóða upp á. Þeir pressuðu leikmenn KR út í vondar ákvarðanir hvað eftir annað og þröngvuðu þeim í erfið skot. KR-ingar létu fasta vörn Njarðvíkinga fara í taugarnar á sér og létu margir dómarann heyra það, þó allt(flest) innan skynsamlegra marka. Hversu góð var vörnin? Nýting KR-inga segir eiginlega allt sem segja þarf, 12% í þriggja stiga skotum og 33% í heildina.

 

Vendipunkturinn.

Undir lok þriðja leikhluta voru KR búnir að minnka muninn niður í 10 stig og einungis um 40 sekúndur eftir af leihlutanum. Þá braut Þórir Þorbjarnarson klaufalega á Loga Gunnarssyni í þriggja stiga skoti, Logi þakkaði pent fyrir sig og kláraði öll þrjú vítaskotin af öryggi. KR-ingar brunuðu í sókn, en ekki vildi betur til en að Brynjar kastaði boltanum í hendur Björns Kristjánssonar sem keyrði í hraðaupphlaup og fann fyrrnefndan Loga í galopnum þristi sem hann lét ekki bjóða sér tvisvar, beint niður og Njarðvík 16 stigum yfir eftir þrjá leikhluta.

 

Maðurinn

Björn Kristjánsson mætti á sinn gamla heimavöll og spilaði stórvel, setti niður helming skota sinna sem skilaði honum 24 stigum, ásamt því að spila fína vörn, eins og reyndar allt Njarðvíkurliðið eins og áður hefur verið sagt. Björn virtist þekkja netið í DHL höllinni betur heldur en hans gömlu liðsfélagar og var hann sérstaklega sterkur í byrjun leiks þegar hann hélt Njarðvíkingum á floti sóknarlega. Til þess að kóróna leik sinn þá slökkti hann endanlega vonarneista KR-inga með flottu skoti þegar um mínúta var til leiksloka. Án vafa besti leikmaður vallarins í dag.

 

Tölfræði leiks

 

Umfjöllun / Sigurður Orri Kristjánsson

Viðtöl / Davíð Eldur

Mynd / Bára Dröfn

 

Fréttir
- Auglýsing -