Íslenska U18 landsliðið vann frábæran sigur á Noregi á evrópumóti U18 kvenna sem fram fer í Írlandi þessa dagana. Leikið var um 13-16 sæti og þýðir sigurinn því að Ísland mun leika um 13. sæti mótsins á morgun.
Það fór ekki vel af stað fyrir Ísland í dag er Noregur byrjaði mun betur. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 20-11 og róðurinn strax þungur fyrir Ísland. Íslenska liðið kom hægt og rólega til baka og komst ekki yfir fyrr en í fjórða leikhluta en í honum vann Ísland 21-12 of tryggði sér frábæran 59-55 sigur.
Birna Valgerður Benónýsdóttir var stigahæst hjá Íslandi með 19 stig og bætti 13 fráköstum við það. Þóranna Hodge-Carr var einnig frábær að vanda, var með 5 stig, 16 fráköst og 3 stolna bolta.
Ísland mun því spila gegn annað hvort Austurríki eða Úkraínu kl 12:45 í morgun. Þar lýkur Íslenska liðið leik og leikur um 13 sæti en frábært hefur verið að fylgjast með framförum liðsins á mótinu.