Gestirnir úr Grindavík mættu grimmir í DHL-höllina í kvöld og ætluð sér greinilega eitthvað annað og meira en að standa í óárennilegum taplausum heimamönnum. Grindvíkingar komust í 2-7 áður en heimamenn komu úr jólafríi. KR-ingar komust fyrst yfir í stöðunni 17-16 en gestirnir misstu ekki fótana við það og enduðu leikhlutann með 9-3 spretti. Staðan 17-20 eftir fyrsta fjórðung.
Eins og allir vita er móðir allra íþrótta, körfuboltinn, íþrótt áhlaupanna og KR-ingar áttu eitt slíkt á fyrstu mínútum annars fjórðungs. Darri og Brilli tóku við stigaskorun af Pavel og létu rigna þristum og staðan skyndilega 30-25 heimamönnum í vil. Vörnin var góð á þessum kafla hjá KR-ingum en Ólafssynir gerðu þeim líka auðvelt fyrir með því að henda upp slæmum þriggja stiga skotum ítrekað sem ekki fóru rétta leið, en þetta virðist vera eitthvert ættareinkenni sem hefur sína kosti (þegar hann dettur) og galla. Eitt skotanna datt þó hjá Óla, sem var í það skiptið galopinn, en KR-ingar héldu samt áfram á sprettinum og komust í 38-30. Vafalaust höfðu margir það á tilfinningunni að ógnarsterkt lið heimamanna myndi nú bara bæta í. En svo fór aldeilis ekki, gestirnir sýndu gríðarlegan karakter og sneru leiknum algerlega við. Ísafjarðartröllið snjalla leiddi gestina í 15-0 áhlaupi, en þetta fullvaxta karldýr er afar þykkjumikið og óstýrilátt undir körfunni. Þess má geta að Sigga tókst að skora 4 stig á einni sekúndu eftir að hafa stolið innkasti KR-inga undir körfunni strax eftir 2 stig frá honum. KR-ingar gerðu sig svo seka um sambærilegan aulaskap skömmu síðar og að loknum fyrri hálfleik leiddu gestirnir með 51 stigi gegn 42.
Í þriðja leikhluta snerist svo leikurinn aftur algerlega við. KR-ingar með Helga í broddi fylkingar tóku aftur upp á því að smella þristum ítrekað, stoppa í vörninni og eftir 15-4 kafla voru heimamenn komnir yfir, 57-55. Sverrir tók leikhlé og svo virðist sem honum hafi tekist að hjálpa sínum mönnum við að standa af sér þennan storm. Lewis spilaði einkar vel á þessum kafla og leikurinn hélst loksins í jafnvægi fram að fjórða leikhluta, heimamenn 3 stigum yfir fyrir lokaátökin, 73-70.
Lokaleikhlutinn var skemmtilegur og spennandi lengst af. Þrátt fyrir bekkjarsetu Ísafjarðartröllsins framan af vegna 4 villna seigluðust gestirnir fram úr með framlagi úr ýmsum áttum. Um miðjan leikhlutann var staðan 80-81 en eftir sílspikaðan þrist frá Jóa og rosalegan hyldjúpan erfiðan tvist frá Lewis komust Grindvíkingar í 81-88 og þrjár eftir. Það fór svo vel á því að þegar rétt rúm mínúta lifði leiks ísaði Ísafjarðartröllið leikinn og kórónaði frábæran leik með góðu ,,and1“, staðan 85-95. Liðin skoruðu umtalsvert á lokamínútunni en þrátt fyrir ágæta tilraun heimamanna til að brúa bilið kom allt fyrir ekki, gestirnir sýndu karlmennsku sína og stáltaugar á línunni og lauk leik með 98 stigum KR gegn 105 stigum gestanna.
Siggi Þ. var frábær í þessum leik, skilaði 24 stigum, góðri nýtingu og 12 fráköstum. Einnig sýnist undirrituðum að Lewis fái ekkert frímerki á afturendann í bráð eins og svo margir sveitungar hans til þessa, en hann var algerlega frábær í þessum leik og varð betri og betri eftir því sem á leið leik. Hann lauk leik með 34 stig, 6 fráköst og 7 stoðsendingar, og stýrði leik gestanna af stakri snilld í kvöld. Ómar Sævarsson á svo skilið hrós fyrir góðan leik, setti mikilvægar körfur og endaði með 14 stig og 8 fráköst.
Hjá heimamönnum skiluðu allnokkrir ágætu framlagi sóknarlega. Pavel áttu flottan leik, skoraði 24 stig og var með fína nýtingu. Martin setti 21 stig og Helgi skilaði 16 stigum og 8 fráköstum. Eins og sjá má á lokastöðunni var það kannski mikið frekar slakari varnarleikur KR-inga en oftast áður í vetur sem varð þeirra banabiti í kvöld.
Frábær sigur Grindvíkinga og með fullri virðingu fyrir KR-ingum eru líklega flestir aðrir körfuboltaáhugamenn ánægðir að sjá að KR-liðið er ekki ósigrandi og þar af leiðandi ekki fyrirfram sjálfskipaðir Íslandsmeistarar 2014.
Umfjöllun: Kári Viðarsson



