Tindastóll hóf í dag leik í Evrópukeppni í körfubolta. Liðið leikur í European North Baseketball League (ENBL) og fyrsti leikurinn fór fram í Slóvakíu gegn BC Slovan Bratislava.
Stuðningsmenn Tindastóls vissu ekki mikið um við hverju mætti búast enda ekki mikið vitað um andstæðinginn þó þar væri vitað um leikmenn sem voru með nokkra NBA leiki undir beltinu.
Leikurinn fór frekar rólega af stað sóknarlega og Ragnar Ágústsson kom Stólum á bragðið með laglegri körfu eftir rúmar 2 mínútur. Eftir fylgdi þristur frá Taiwo og Stólar komnir í 5-0 og virkuðu frá byrjun mun ákafari en andstæðingurinn. Mjög lítið var skorað framanaf og í stöðunni 6-8, eftir rúmar 5 mínútur, komu tveir þristar frá Arnari og Geks og Stólar komnir 8 stigum yfir. Þeirri forystu héldu þeir inn í leikhlutaskiptin og byrjuðu svo annan leikhluta með þristi frá Geks, 12-23 fyrir Stóla! Menn voru alltaf að búast við áhlaupi frá sterkum heimamönnum en það kom ekki eða var kæft af vinnusömum Stólum. Á sóknarhelmingnum mætti Ivan Gavrilovic í vinnuna og skoraði 10 stig í röð og tvö víti frá Basile komu Stólum í 14 stiga forystu þegar 3 mínútur voru til hálfleiks. Arnar bætti þristi við og staðan orðin 24-40 en heimamenn rykktu aðeins til baka fyrir hálfleik með 7-2 kafla.
Seinni hálfleikurinn hófst með 9-2 áhlaupi Stóla og heimamenn virkuðu annaðhvort latir eða ráðvilltir og áttu að minnsta kosti fá svör. Þeir náðu þó að ganga aðeins á lagið þegar Stólar hættu að hitta upp úr miðjum þriðja fjórðung og minnkuðu muninn í 12 stig þegar 2 mínútur voru eftir. Þá fengu þeir 2 þrista frá Geks í andlitið og eftir góða körfu frá Ivan í kjölfarið var munurinn skyndilega kominn í 20 stig og Stólar litu hreinlega ekki til baka eftir það. Síðasti fjórðungurinn var meira af því sama, áhlaupum heimamanna var hrundið og aðeins bætt í ef eitthvað var. Troðsla frá Ragga um miðjan fjórðunginn vakti sérstaka lukku!
Lokatölur 56-80 og fyrsti Evrópusigur Tindastóls á leiktíðinni staðreynd.
Arnar þjálfari rúllaði liði sínu afar vel í dag og allir fengu mínútur á parketinu. Ivan endaði stigahæstur með 20 stig og var frábær en ekki er hægt að segja að Tindastólsliðið hafi verið að spila sinn besta sóknarleik, Basile og Taiwo frekar rólegir og satt best að segja gekk frekar fátt upp hjá Badmus. Heimamenn í Bratislava virkuðu hægir og þungir og náðu sér aldrei á strik gegn ákafa gestanna. Sérstaka athygli vekur að Stólar rústa frákastabaráttunni 40-48 þrátt fyrir að vera með mun lágvaxnara lið.
Frábær sigur á útivelli, til hamingju Stólar!
Umfjöllun / Hjalti Árna



