spot_img
HomeFréttirFrábær leikur í Hertz-Hellinum

Frábær leikur í Hertz-Hellinum

Tilþrifin virtust koma á færiböndum og áhorfendur kunnu það vel að meta þegar ÍR og Stjarnan mættust í hörku skemmtilegum leik í Hertz Hellinum. Sterk rispa hjá ÍR í upphafi fjórða leikhluta gerði útslagið en fram að því höfðu liðin boðið upp á hnífjafnan leik, mikla baráttu og líkast til ekki nægilega sterkan varnarleik, að minnsta kosti getum við gert okkur í hugarlund að það sé afstaða þjálfaranna. Lokatölur 106-99 ÍR í vil sem jöfnuðu Snæfell og Stjörnuna að stigum en sitja þó enn í 9. sæti deildarinnar.
 
 
Annan leikinn í röð fór Justin Shouse í 30 stig eða meira fyrir Stjörnuna, gerði 30 í kvöld og gaf 5 stoðsendingar en sex leikmenn ÍR gerðu 12 stig eða meira í kvöld, þeirra atkvæðamestur var Sveinbjörn Claessen með 22 stig og 7 fráköst.
 
Alls skiptust liðin 24 sinnum á forystunni en það sem reið baggamuninn í kvöld var veglegt framlag hjá ÍR-ingum úr mörgum áttum og 19 þristar rötuðu rétta leið sem er það næst mesta sem lið hefur gert í deildarleik þetta tímabilið en Keflavík á metið sem er 22 þristar.
 
Heimamenn í ÍR komust í 9-0 áður en Fannar Freyr Helgason tók til starfa á blokkinni fyrir Stjörnuna og gerði fyrstu stig gestanna. Junior Hairston sem snéri aftur í lið Stjörnunnar eftir leikbann minnkaði muninn í 17-12 með rosalegri troðslu þar sem hann greip boltann viðstöðulaust í loftinu eftir skot Stjörnunnar og tróð með látum. Fáir ef nokkrir sem komast í sömu hæðir og kappinn í úrvalsdeildinni. Stjarnan minnkaði muninn undir lok fyrsta leikhluta í eitt stig, staðan 21-20 fyrir heimamenn.
 
Hairston var ekki hættur með troðslusýninguna og opnaði annan leikhluta með annarri skrímslatroðslu en þessum látum svaraði Sveinbjörn Claessen með þrist og fékk villu að auki og landaði kafteinninn að sjálfsögðu fjögurra stiga sókn. Svona gekk þetta í öðrum leikhluta, hann fór 30-30 og hamaganginn og tilþrifin kunnu áhorfendur vel að meta þó varnarræður hafi örugglega verið brúkaðar í leikhléum. Áfram leiddu heimamenn með eins stigs mun og nú 51-50 þegar blásið var til hálfleiks. Magnaður leikhluti að baki.
 
Þriðji leikhluti var ekki síður fjörlegur. Hjalti Friðriksson sýndi að hann dreymir um að vera bakvörður þegar hann uppi á lykli hristi laglega af sér Fannar Helgason og gerði tvö auðveld stig. Hairston svaraði á hinum endanum skömmu síðar með góðum snúning og tróð enn eina ferðina, 68-71. Rétt eins og annar leikhluti var sá þriðji mikil skemmtun og hnífjafn. Sigurður Dagur Sturluson skellti niður sterkum Stjörnuþrist og kom gestunum í 68-74 en Björgvin Hafþór svaraði strax í sömu mynt á hinum endanum. Garðbæingar leiddu 73-74 og áttu síðustu sóknina. Hinn þindarlausi og armalangi Björgvin Hafþór afrekaði þá að stela boltanum af Justin Shouse, hrinda af stað skyndisókn hjá ÍR sem lyktaði með því að Björgvin fékk boltann aftur í teignum og kláraði leikhlutann með flautukörfu í spjaldið og ofan í og ÍR-ingar leiddu 75-74.
 
Ísmaðurinn Ragnar Örn Bragason lætur ekki opið skot fram hjá sér fara og það sem betra er, hann smellir þeim í gríð og erg. Ragnar opnaði fjórða leikhluta með þrist og var aftur á ferðinni skömmu síðar og kom ÍR í 81-74 en byssan var 4 af 5 í þristum þetta kvöldið! Nigel Moore blandaði sér í þristaveisluna, Matthías Orri kom þar á eftir og Sveinbjörn Claessen lét ekki sitt eftir liggja og snöggtum var ÍR komið með 90-83 forystu og heimamenn sjóðheitir með sex mínútur eftir af leiknum.
 
Eftir þessa hellidembu í upphafi fjórða leikhluta var ekki aftur snúið. Stjörnumenn náðu að minnka muninn í sjö stig í leikslok en draumabyrjun ÍR á fjórða leikhluta var þeim um megn. Ákjósanlegt nesti sem ÍR-ingar taka nú með sér í Laugardalshöllina um helgina þar sem þeir mæta Grindavík í bikarúrslitum en Garðbæingar að sama skapi hafa nú tapað fimm deildarleikjum í röð og öllum með 5,2 stiga mun að jafnaði. ÍR, Stjarnan og Snæfell hafa nú öll 14 stig í deildinni og berjast hart um sæti í úrslitakeppninni.
 
 
Mynd/ [email protected] – Nigel Moore sækir að Stjörnuvörninni í Breiðholti í kvöld.
  
Fréttir
- Auglýsing -