spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild karla”Frábær frammistaða í seinni hálfleik sem skóp þennan sigur”

”Frábær frammistaða í seinni hálfleik sem skóp þennan sigur”

Jóhann Þór Ólafsson þjálfari Grindavíkur gat ekki annað en verið sáttur eftir flottan sigur gegn Haukum í kvöld í 11. umferð Subway deildarinnar. Karfan tók hann tali eftir leik í Smáranum.

Flottur sigur hjá þínum mönnum…og sigrar gegn Haukum ef við tökum bikarleikinn með. Til að hljóma gáfulega þá myndi ég greina þennan leik þannig að varnarleikurinn í þriðja leikhluta hafi lagt grunninn að sigrinum?

Já ég tek heilshugar undir það. Við vorum bara flottir í seinni hálfleik svona heilt yfir. Tilfinningin fyrir leiknum eins og hann þróaðist var að ef við myndum skrúfa upp orkuna í seinni þá myndum við ná yfirhöndinni og það var það sem gerðist. Seinni hálfleikurinn var bara alveg til fyrirmyndar. 

Einmitt. Mér fannst þið strax gera ykkur líklega til að ná tökum á þessu, þið komist 10 yfir í fyrsta leikhluta en fóruð kannski illa að ráði ykkar í lok fyrsta..voruð kannski aðeins of ástfangnir af þriggja stiga skotinu, misstuð smá fókus varnarlega og þeir komu sér inn í þetta aftur…

Algerlega, en þeir svo sem lokuðu teignum vel og við vorum svo sem ekkert að taka léleg skot en ég er svo sem sammála því að heilt yfir í gegnum þennan fyrri hluta hefðum við getað gert meira af því að ráðast á hringinn og það er eitthvað sem við tölum mikið um. Mér leið ekkert illa með þennan fyrri hálfleik en bara frábær frammistaða í seinni hálfleik sem skóp þennan sigur. 

Já akkúrat. Ég verð að spyrja þig út í Kane sem spilaði ekkert í seinni hálfleik….einhver meiðsli?

Já hann er eitthvað að ströggla með nárann síðan á mánudaginn, hann hefur ekkert æft síðan þá. Við vorum að reyna að tjasla honum saman en það gekk bara ekki upp, og þetta er líka bara skynsemi, við erum að fara núna í 2-3 vikna frí og hann fær þá góða pásu til að ná sér. 

Hann mætir þá vonandi 100% eftir jólin…

Já það er svona stefnan. 

En hvað með Jokic, ég sá að hann var ekki með á mánudaginn. Er hann ekki lengur með liðinu?

Nei, hann er farinn. Við bara tókum ákvörðun um það og það er bara búið og gert. 

Já, ég er svolítið hissa á því, mér fannst hann vera púslið sem vantaði, stóri rumurinn sem hentar gegn ákveðnum leikmönnum í deildinni…?

Það má alveg færa góð rök fyrir því…en það eru bara aðrar ástæður fyrir því að við tókum þessa ákvörðun og við stöndum bara og föllum með því.

Akkúrat. Eitt að lokum…þú hlýtur að vera sammála mér um það að það er mjög jákvætt fyrir þína menn að sjá Val Orra vera kominn með svolítið sjálfstraust og svo virðist Kristófer Breki bara alltaf vaxa og vaxa smátt og smátt…ég er hrifinn af honum.

Já algerlega. Breki er alltaf með ákveðna orku og kraft varnarlega, vantar aldrei upp á það. Valur Orri kann alveg körfubolta og hefur verið alveg fantagóður núna í síðustu leikjum. Eins og þú segir þá er þetta mjög jákvætt.

Já…þið farið bara nokkuð sprækir í jólafríið?

Algerlega.

Fréttir
- Auglýsing -