spot_img
HomeFréttirFrábær fjórði leikhluta Valskvenna

Frábær fjórði leikhluta Valskvenna

Valur tók á móti Njarðvík í Iceland Express deildinni í gærkvöld í Vodafonehöllinni. Leikurinn fór fram á óvenjulegum tíma eða klukkan 18.00 þar sem strax eftir leikinn fór fram bikarundanúrslitaleikur Vals og Stjörnunnar í kvennahandboltanum. Leikurinn var mikilvægur fyrir bæði lið þar sem Njarðvík berst við að halda í við Keflavík sem situr á toppi deildarinnar og komin eru síðustu forvöð fyrir Val að ná inní úrslitakeppnina og mega þær ekki við því að misstíga sig meira.
Leikur liðanna fór ágætlega af stað og var nokkur hraður. Liðin fengu bæði mikið af opnum skotum og virtist sem varnarleikurinn væri í aukahlutverk í upphafi. Ljóst var strax í upphafi að Valur vildi keyra hraðann upp, þær tóku skot yfirleitt snemma í sóknum sínum og pressuðu eftir vítaskot. Njarðvík hins vegar hlupu sóknir sínar töluvert lengur og uppskáru góðar sóknir eftir því. María Ben byrjaði leikinn mjög sterkt og virtist geta skorað að vild en Baker, hin knái og öflugi bakvörður Njarðvíkurliðsins, hreinilega lék sér að vörn heimamanna og var þeirra besti maður í upphafi. Mikið jafnræði var með liðunum en Valskonur leiddu 24-23 eftir fyrsta leikhlutann eftir fallega flautukörfu.
 
Valskonur urðu fyrir áfalli snemma í öðrum leikhlutanum þegar María Ben, sem var komin með 11 stig, sneri sig illa á ökkla og varð frá að hverfa. Lele Hardy kom sterk inn í annan leikhlutann og sömuleiðis áttu þær Ína María og Salbjörg góðar innkomnur af bekknum hjá gestunum. Hittni liðana hélt áfram að vera slök og virtist lítið ganga upp hjá Petrúnellu. Unnur Lára var að leika vel hjá Valskonum sem og Lacey Simpson. Um miðbik leikhlutans náðu Valskonur smá frumkvæði en við það jókst hraði leiksins, liðin fóru að pressa og prófuðu fyrir sér í svæðisvörnum sem bæði lið virtust vera að ströggla með enda mikið af mistökum í gangi. Í stöðunni 44-39 skorar Hardy góða körfu og fær víti að auki sem hún setur niður. Ágúst tekur leikhlé enda liðið búið að klikka gegn 2-2-1 pressu gestanna nokkrum sinnum á undan. Leikhléið virtist í fyrstu hafa gengið fullkomlega upp því heimastúlkur leystu pressuna vel og voru komnar í opið sniðskot sem geigaði. Við það virtust þær algjörlega missa hausinn og gestirnir gengu á lagið og hreinilega óðu fyrir Valsliðið. Enduðu þær leikhlutann á 12-0 áhlaupi á síðustu 100 sekúndum og leiddu 51-44 í hálfleik.
 
Í hálfleik voru Melissa og María Ben stigahæstar hjá Val með 11 stig, Lacey Simpson með 10 og Unnur Lára með 6 stig. Hjá Njarðvík voru Hardy og Baker allt í öllu með 17 og 13 stig en Salbjörg Sævarsdóttir og Ólöf Helga voru einnig að leika vel.
 
Valskonur komu sterkar út í seinni hálfleikinn og minnkuðu muninn strax í 48-51 en gestirnir slitu sig aftur frá með góðri þriggja stiga körfu frá Söru Dögg Margeirsdóttur 48-56. Tvær frábærar „and-1“ körfur í röð frá Guðbjörgu Sverrisdóttur kveiktu hins vegar í Valskonum og allt í járnum um miðbik leikhlutans. Njarðvík hélt frumkvæðinu og komu fyrsta stig Petrúnellu í leiknum úr víti í stöðunni 63-60. Stuttu seinna var Ágúst þjálfar Valsliðsins ósáttur við nokkrar ákvarðanir dómara leiksins og uppskar fyrir það tæknivillu sem virtist kveikja vel í heimamönnum þar sem þær jöfnuðu leikinn í 67-67. Hófst þá mikill baráttu kafli þar sem lítið gekk upp hjá liðunum og fóru þau jöfn, 69-69, inní fjórða leikhlutann. Undir lokleikhlutans nældi Baker sér í sína fjórðu villu á einstaklega klaufalegan hátt, reyndi að stela boltanum þegar 2 sekúndur voru eftir af fjórðungnum af Melissu sem var í engri stöðu til að skora.
 
Baker hóf því fjórða leikhlutann á bekknum og gengu Valsstúlkur strax á lagið. Þær náðu frumkvæðinu strax með þriggja stig körfu eftir slæm varnarmistök gestanna og sjálfstraustið fór vaxandi á meðan sóknarleikur Njarðvíkurkvenna var ómarkviss og of háður einstaklingsframtaki Lelu Hardy. Þegar 6 og hálf mínúta var eftir fékk Sverrir Þór nóg og tók leikhlé en þá leiddu Valskonur 78-72. Baker kom þá aftur inná og var fljót að koma sér á blað aftur en Valskonur héldu vel á spöðunum og leiddu áfram. Unnur Lára átti frábæran kafla þar sem hún var að klára sóknirnar vel en á meðan var Njarðvík ekki að ná að klára sín færi og þess að auki fóru illa að ráði sínu á vítalínunni. Hægt og rólega jókst munurinn því Valur virtist nýta hverja einustu sókn meðan lítið gekk hjá gestunum. Unnur Lára kom Val í 89-79 þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir en við það virtust úrslitin vera ráðin. Valskonur héldu áfram að raða niður stigunum meðan uppgjafartónn var á hinum endanum. Það var svo að lokum Melissa sem rak endahnútinn á 15-0 sprett heimamanna með þriggjastiga flautakörfu sem kom liðinu í 100 stig. Það voru reyndar ekki síðustu stig leiksins þar sem bekkur Vals fagnaði aðeins of snemma og hlupu inná völlinn áður en tíminn var búinn og hlutu fyrir það tæknivillu. Andrea Björt Ólafsdóttir fór á línuna og setti bæði vítin niður sem var þó lítil sárabót fyrir gestina. Lokatölur 100-81 fyrir Val.
 
Leikurinn var í heild sinni góð skemmtun, hraðinn nokkuð mikil en honum fylgdi þó eðlilega töluvert meira af mistökum sem komu fram bæði í töpuðum boltum og klikkuðum skotum nálægt körfunni. Vendipunktur leiksins var þó líklega þegar Baker náði sér í sína fjórðu villu undir lok þriðja leikhlutans. Hún hóf lokaleikhlutann á bekknum og nýttu Valskonur sér það vel á meðan sóknarleikur gestanna var stirrður. Við það fengu gestgjafarnir sjálfstraust og kláruðu leikinn með stæl. Miklu munaði þó að Petrúnella náði sér engan veginn á strik í leiknum og lauk leik með einungis 1 stig og 8 tapaða bolta en hún er búin að vera að spila einstaklega vel að undanförnu.
 
Hjá Val var það sameignilegt átak sem réði úrslitum. María Ben byrjaði leikinn gríðarlega vel en meiddist svo snemma í öðrum leikhluta og spilaði ekki meir og lauk því leik með 11 stig. Melissa átti góðan leik með 23 stig og 8 stoðsendingar, hin langa Lacey Simpson var með 19 og 18 fráköst, Unnur Lára var virkilega sterk á lokasprettinum og lauk leik með 16 stig, Guðbjörg Sverrisdóttir var með 13, Kristrún Sigurjónsdóttir bætti við 12 og Þórunn Bjarnadóttir átti góðar innkomur þrátt fyrir að skora ekki mikið.
 
Hjá Njarðvík voru þær Lele Hardy (26 stig og 14 fráköst) og Shane Baker (22 stig) allt í öllu en Ólöf Helga bætti við 12 stigum, 9 fráköstum og 6 stolnum bolta. Liðinu sárvantaði stigaframlag frá fleiri leikmönnum í seinni hálfleik og munaði þar mikið um Petrúnellu. Salbjörg náði ekki að fylgja eftir góðri innkomu í fyrri hálfleik og endaði með 8 stig.
 
 
Maður leiksins: Unnur Lára Ásgeirsdóttir
 
Eftir leikinn og úrslit kvöldsins þá situr Njarðvík ennþá í öðru sæti með 30 stig, fjórum stigum á eftir Keflavík en Valur er áfram í 6. sæti og átta stigum á eftir fjórða sætinu sem gefur rétt á sæti í úrslitakeppninni.
 
• Dómarar leiksins voru þeir Eggert Aðalsteinsson og Sigurbaldur Frímannsson sem höfðu um nóg að snúast og komust vel frá sínu
• Signý Hermannsdóttir lék ekki með Valsliðinu
• Þrjár tæknivillur litu dagsins ljós í leiknum, allar í seinni hálfleik. Ágúst fékk þá fyrstu fyrir mótmæli, svo Ólöf Helga fyrir mótmæli og loks Valsbekkurinn fyrir að fara inná völlinn áður en leiknum lauk.
• Með sigrinum heldur Valur enn í vonina með að komast í úrslitakeppnina þegar 7 umferðir eru eftir.
• Næsti leikur Njarðvíkur er á úti velli gegn Haukum á laugardaginn en Valur fær Snæfell í heimsókn sama dag.
 
Umfjöllun/ FFS
Fréttir
- Auglýsing -