spot_img
HomeFréttirFrábær byrjun skilaði sigri á Belgum

Frábær byrjun skilaði sigri á Belgum

?A-landslið karla lék gegn því belgíska í vináttuleik sem fór fram í Smáranum í kvöld. Ljóst var að um erfiðan leik yrði að ræða, enda eru Belgar í 44. sæti á heimslista FIBA á meðan að Ísland er í 84. sæti. Belgar hafa líka yfirleitt reynst liðinu erfiðir og sem dæmi fyrir EM 2015 unnu Belgar okkur nokkuð sannfærandi með yfir 40 stigum. 

 

Ísland tók forystuna strax frá fyrstu mínútu og þrátt fyrir nokkur ágæt áhlaup hjá Belgum þá vann íslenska liðið leikinn 83-76. Martin Hermannsson og Elvar Már Friðriksson voru bestir hjá íslenska liðinu, Martin stigahæstur og Elvar stoðsendingahæstur.

 

Gangur leiksins

 

Ísland byrjaði með offorsi og komst strax í 7-0 með 7 stigum frá Martin. Á næstu mínútum voru strákarnir okkar alltaf með svar við hverju sem Belgarnir komu með og staðan í lok fyrsta leikhluta 24-15.

 

Í öðrum leikhluta fór Ísland að rúlla meira á liðinu og flestir skiluðu sínu en Belgarnir voru aldrei langt undan. Hálfleiksstaðan: 47-35, Ísland í vil.

 

Annar hálfleikurinn byrjaði ekki alveg eins og sá fyrri og Belgar náðu nokkrum ágætum áhlaupum og voru á tímabili aðeins 5 stigum á eftir Íslandi. Staðan var 66-60 fyrir fjórða leikhluta.

 

Lokaleikhlutinn var jafn og spennandi til að byrja með og Belgar komust 1 stigi frá Íslandi á fyrstu mínutunni. Þá tók Brynjar Björnsson sig til og setti tvo þrista með stuttu millibili og munurinn var aftur orðinn ágætur.

 

Strákarnir okkar kláruðu leikinn með stæl og lokastaðan var því 83-76 og strákarnir halda sáttir á Akranes á laugardaginn.

 

Tölfræði leiksins

 

Skotnýting Íslands í leiknum var góð, 52% bæði í tveggja stiga skotum og þriggja stiga skotum, og þeir klikkuðu ekki á neinu vítunum sínum 7. Athyglisvert var að sjá að íslenska landsliðið skoraði 38 stig inni í vítateignum á móti 26 hjá því belgíska og því má eflaust þakka flottu flæði í sókninni ásamt góðum „pick and roll“ fléttum.

 

Hetjan 

 

Vinirnir Martin og Elvar Már voru mestu hetjurnar í leiknum þó að allt íslenska liðið hafi staðið sig vel sem heild.

 

Martin opnaði leikinn vel fyrir Ísland með 7 stigum í röð og Elvar virtist á tímabili hafa augu í hnakkanum og gaf hverja glæsilega stoðsendingu á fætur annarri.

 

Martin lauk leik með 15 stigum, 5 fráköstum og 46% skotnýtingu, flottur með 15 framlagspunkta. Elvar Már setti 5 stig, gaf 7 stoðsendingar, tók 3 fráköst og klikkaði ekki á skoti né víti, hann var framlagshæstur með 18 framlagspunkta.

 

 

Kjarninn

 

Ísland er komið í gírinn með að undirbúa sig fyrir EM 2017 í Finnlandi og þessi leikur virðist sýna að allt sé á réttri leið. Kæfandi skiptivörnin virðist vera að virka nokkuð vel og Belgar náðu ekki að nýta hæðarmismunin sem best þrátt fyrir að nokkrir íslenskir bakverðir hafi orðið undir einum og einum belgískum framherja nálægt körfunni. Þrátt fyrir að Belgía hafi verið að spila án þriggja byrjunarliðsmanna þá var Ísland sömuleiðis án Jóns Arnórs Stefánssonar og Pavels Ermolinskij og liðið á því ennþá nóg inni. Varast skal þó að lesa allt of mikið úr leiknum enda ekki alltaf sem að íslenska liðið hittir svona vel.

 

Það eru augljóslega margir efnilegir að banka á dyrnar hjá íslenska landsliðinu einmitt núna, en allir skoruðu í liðinu fyrir utan einn. Ljóst er að þjálfarateymi Íslands bíður erfitt verk að grisja hópinn, en margir leikmenn sýndu á köflum góða takta. Það er allavega öruggt að tvö pláss séu laus eftir að Helgi Már Magnússon og Jakob Örn Sigurðsson gáfu ekki kost á sér í landsliðið eftir EM 2015 í Berlín.

 

Þá er beint í næsta leik á Skaganum á laugardaginn kl.17:00 gegn Belgum aftur, en íslenska landsliðið stefnir væntanlega á annan sigur þar áður en þeir halda út í æfingaleikjaferð.

 

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn

 

Einkunnagjöf leikmanna

 

 

Viðtöl eftir leik:

 

 

 

 

Umfjöllun / Helgi Hrafn Ólafsson

Myndir / Bára Dröfn 

Viðtöl / Ólafur Þór Jónsson

Fréttir
- Auglýsing -