Tindastóll tók á móti ÍR í Bónus deild karla í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. ÍR-ingar höfðu unnið síðustu tvo leiki í deildinni en leik Stóla gegn Keflavík í síðustu umferð var frestað vegna ENBL leiks Stóla sem tryggðu sig þar í 16-liða úrslit í þeirri keppni.
Gestirnir byrjuðu leikinn á þrist frá Klonaras en heimamenn svöruðu og náðu fljótt undirtökunum. Arnar þjálfari skipti hratt og strax eftir 3 mínútur voru Arnar Björns og Ivan komnir inná. Ivan var illviðráðanlegur í þessum fyrsta leikhluta og skoraði 9 stig á þeim 5 mínútum sem hann spilaði. Geks lokaði leikhlutanum með þristi og Stólar leiddu 26-20. Drungilas hóf annan leihkluta með góðri körfu en svo kom áhlaup frá gestunum sem komust yfir eftir rúmlega 3ja mínútna leik 30-32. Forystan varð þó aldrei meiri en 1-2 stig og Stólar lokuðu hálfleiknum með eigin áhlaupi, skoruðu 13 stig í röð áður en Björgvin Hafþór svaraði. Staðan 50-41 í hálfleik.
Stólar héldu þessum mun í þriðja leikhluta og þegar 3:32 voru eftir kom þristur frá Pétri Rúnari, svo frá Ragnari og svo annar frá Pétri sem kom Stólum í 16 stiga forystu. Pétur Rúnar bætti svo 2 stigum við en ÍR-ingar eru ólseigir og komu til baka með 8 stigum í röð frá Hákoni og staðan 77-67 fyrir lokaátökin. Þrátt fyrir nokkur áhlaup frá gestunum þá náðu Stólar alltaf að halda þeim nægilega langt frá sér og lönduðu að lokum 11 stiga sigri 101-90.
Hjá Tindastól endaði Basile stigahæstur neð 17 stig og Geks og Ivan bættu við 15 hvor. Taiwo Badmus átti hauskúpuleik með 8 stig en 5 tapaða bolta og einungis 8 í framlag. Hjá gestunum var Falco öflugur með 23 stig og 10 stoðsendingar.
Viðtöl
Umfjöllun // Hjalti Árna



