spot_img
HomeFréttirFrá deildar- og bikarmeisturum Vals til liðs við Íslandsmeistara Tindastóls

Frá deildar- og bikarmeisturum Vals til liðs við Íslandsmeistara Tindastóls

Tindastóll hefur samið við Callum Lawson fyrir komandi tímabil í Subway deild karla.

Callum kemur til liðsins frá deildar- og bikarmeisturum Vals, en hann hefur síðan hann kom til Íslands einnig leikið fyrir Þór og Keflavík. Með Þór vann hann Íslansmeistaratitilinn árið 2021 og árið eftir gerði hann slíkt hið sama með liði Vals.

Callum Lawson: „Ég hef oft spilað á móti Tindastóli á síðustu árum og alltaf dáðst að þessari miklu stemningu og stórkostlegu umgjörð sem er í kringum liðið. Það hefur verið mikil áskorun að mæta í Síkið og kljást við bæði frábæra leikmenn og einstakt andrúmsloft. Úrslitarimman á milli okkar í Val og Tindastóli sl. vor er upplifun sem ég mun aldrei gleyma. Nú mun ég njóta þess að vera með en ekki á móti öllu fjörinu á Sauðárkróki og ég hlakka mikið til að vinna bæði með Pavel og strákunum í liðinu að því verkefni að verja þann langþráða Íslandsmeistaratitil sem náðist í höfn sl. vor.“

Pavel Ermolinskij, þjálfari Tindastóls “Callum á vafalaust eftir að verða mikill máttarstólpi í liði okkar á komandi vetri. Hann er fjölhæfur leikmaður sem hefur liðið sitt ávallt í fyrirrúmi. Skorar sjálfur, vinnur fráköst, vinnur varnarvinnuna sína um allan völl en matar líka félaga sína eldsnöggt á sóknarfærum með ótrúlegri útsjónarsemi. Það dýrmætasta af öllu er samt hve hann er mikill leiðtogi jafnt innan vallar sem utan. Þess vegna hefur hann lengi verið efstur á óskalistanum.”

Dagur Baldvinsson, formaður Tindastóls: „Þetta er mikill hvalreki á okkar fjörur og enn ein staðfesting þess að Tindastóll er orðinn valkostur fyrir körfuknattleiksmenn í allra hæsta gæðaflokki hér á Íslandi. Callum hittir hér gamla félaga og ég er sannfærður um að hann muni styrkja liðsheildina og falla vel inn í þann sterka hóp sem nú býr sig undir átökin á komandi vetri.”

Ljósmynd: Davíð Már Sigurðsson

Grafík: Halldór Halldórsson

Fréttir
- Auglýsing -