Orðið sópur kom oft við sögu í máli manna við Frostaskjól í kvöld. KR kjöldró þá Tindastól 94-74 í fyrstu úrslitaviðureign liðanna um Íslansmeistaratitilinn í Domino´s-deild karla. Brynjar Þór Björnsson kunni því vel að vera laus úr yfirhöfninni frá tískulínu Loga Gunnarssonar og sallaði niður 22 stigum og tók 12 fráköst í liði KR. Brynjar gangsetti maskínuna en þungavigarmenn á borð við Craion, Helga og Darra höfðu einnig sitt til málanna að leggja. Helgi Rafn Viggósson bar af í liði gestanna með 18 stig og 10 fráköst á meðan skorarar liðsins létu snöggfrysta sig og því óhætt að segja að fótunum hafi verið kippt undan Tindastól í þessari ferð þeirra á mölina.
KR leiðir því seríuna 1-0 eftir sannfærandi sigur og ekki að ósekju að margir skuli ræða um sóp og fleira til á þessari stundu. Ekki ósvipað og þegar KR tók sterka 1-0 forystu í undanúrslitunum gegn Njarðvíkingum. Næst á dagskrá er einn erfiðasti útivöllur landsins þar sem KR lá í deildarkeppninni.
Eins og áður hefur komið fram var Myron Dempsey ekki með í kvöld sökum meiðsla á öðru auga og vissara að halda því til haga fyrir nýliðana, ekki ákjósanleg staða að mæta í DHL-Höllina án byrjunarliðsmiðherjans sem er með um 21 stig og 10 fráköst að meðaltali í leik.
Að leiknum sjálfum þá opnaði Pétur Rúnar Birgisson seríuna er hann braust í gegnum KR teiginn og afgreiddi fyrstu stigin í slagnum um Íslandsmeistaratitilinn. Þetta var fjörugt frá uppkasti og Ingvi Rafn fylgdi fordæmi Péturs, mundaði byssuna og skellti í tvo þrista. Brynjar Þór var beittur hjá röndóttum og gerði 11 stig í fyrsta leikhluta og heimamenn í KR leiddu 22-19 að honum loknum.
Heimamenn með Craion og Brynjar Þór í broddi fylkingar skelltu sér á skeið í öðrum leikhluta. Röndóttir hlóðu í 12-4 byrjun og Israel Martin bað þá um leikhlé. Það var bara mínútu pása fyrir maskínuna sem kraumaði hinum megin því KR vann annan leikhluta 29-12 og leiddi 51-31 í hálfleik. Fyrri hálfleik lauk með hraðaupphlaupi þar sem Finnur Atli Magnússon baðaði sig í evrópskri hámenningu, snyrtileg lögn í gegnum hringinn í stað troðslunnar.
Brynjar „Fear the beard“ Björnsson var með 19 stig í hálfleik og 8 fráköst og Carion með 12 stig og 11 fráköst. Hjá Tindastól var Pétur Rúnar með 8 stig en Lewis sem hafði farið vel af stað var stopp í fimm stigum og átti aðeins eftir að bæta einu til viðbótar það sem eftir lifði leiks.
Skotnýting liðanna í hálfleik:
KR: Tveggja 48% – þriggja 56% – víti 50%
Tindastóll: Tveggja 27% – þriggja 33% – víti 67%
Vonir flestra stóðu til að Tindastóll myndi gera áhlaup í upphafi síðari hálfleiks, færa öllum leik og spennu í kvöldið en það var kæft strax í byrjun því KR opnaði síðari hálfleik með 10-0 áhlaupi. Stólarnir létu það vissulega koma við kauninn í sér að lenda 30 stigum undir en skorarar eins og Ingvi Rafn og Lewis voru bara snöggfrystir, úrræðalausir gegn KR vörninni og það lenti á Helga Rafni Viggóssyni að gera stigin, hlutverk sem hann á síður en nokkrir aðrir leikmenn liðsins að venjast. Þriðji leikhluti reyndist jafn því eftir að hafa lent 30 stigum undir gerði Tindastóll 11-21 rispu og staðan því 72-52 fyrir fjórða leikhluta.
Í fjórða bar það helst til tíðinda að SIgurður Páll Sigurðsson kom inn og bombaði niður tveimur þristum fyrir gestina, lauk leik með 6 stig eða jafn mörg og t.d. Darrel Lewis sem þurfti hálftíma til að koma sex stigum á skýrsluna. Þá hjuggu gestirnir nærri persónulegu meti þetta tímabilið en 69 stig er það minnsta sem liðið hefur skorað í leik á Íslandsmótinu þetta tímabilið en þau reyndust 74 í kvöld og lokastaðan 94-74 eins og áður greinir.
Nokkrir punktar úr leiknum:
* Brynjar Þór Björnsson gerði 11 stig í fyrsta leikhluta fyrir KR.
* Michael Craion var tæpar 15 mínútur að háma í sig 10 fráköst.
* KR var með umtalsverða yfirburði í frákastabaráttunni í fyrri hálfleik, 35-14. Og lauk henni 61-29!
* Brynjar Þór rauf 20 stiga múrinn í fyrsta sinn í úrslitakeppninni og í fyrsta sinn síðan 15. febrúar.
* Helgi Rafn Viggósson átti sína bestu frammistöðu í úrslitakeppninni til þessa, með 22 í framlag, 18 stig og 10 fráköst.
* Sigurður Páll Stefánsson gerði sín fyrstu stig í úrslitakeppninni með Tindastól í kvöld, hann skoraði sex stig í leiknum á fjórum mínútum, jafn mikið og Lewis gerði á hálftíma.
* 15 ár eru liðin síðan Tindastóll vann síðast leik í DHL-Höllinni.
Tölfræði leiksins
Myndasafn – Bára Dröfn
Umfjöllun – Jón Björn



