spot_img
HomeFréttirFótboltabullur sungu nafn körfuboltamanns fyrir leik á EM í Þýskalandi

Fótboltabullur sungu nafn körfuboltamanns fyrir leik á EM í Þýskalandi

Slóvenía og Serbía gerðu jafntefli í dag í öðrum leik sínum á Evrópumótinu í fótbolta í Munchen. Var það Žan Karničnik sem kom slóvenum yfir á 69. mínútu, en fyrir serba jafnaði Luka Jovic í uppbótartíma, 1-1.

Þjóðirnar tvær eru að sjálfsögðu nágrannar, en báðar voru þær hluti af hinni sálugu Júgóslavíu sem leystist upp á tíunda áratug síðustu aldar. Báðar þjóðir hafa á að skipa frambærileg landslið í fótbolta sem á þessu móti eru, en fyrir fylgjendur körfubolta ber einnig að merkja að landslið þeirra í þeirri íþrótt hafa verið með þeim allra bestu í heiminum síðustu áratugi.

Einmitt það bentu serbneskir stuðningsmenn fótboltalandsliðsins á fyrir leik Marienplatz í Munchen í dag er þeir sungu nafn Luka Doncic leikmanns Dallas Mavericks í NBA deildinni og slóvenska landsliðsins. Minntu stuðningsmenn Serbíu þá slóvensku á að Luka Doncic væri einn af þeim, þó svo hann vissulega léki fyrir Slóveníu, en faðir Luka er af serbnesku bergi brotinn.

Fréttir
- Auglýsing -