spot_img
HomeFréttirFórum í skelina og gerðum allt rangt

Fórum í skelina og gerðum allt rangt

11:00

{mosimage}

Við höldum áfram að birta skrif vikunnar í dagblöðunum um Jón Arnór Stefánsson og einvígi Roma og Siena.

Hér er viðtal sem Sigurður Elvar á Morgunblaðinu átti við Jón Arnór eftir tap í þriðja leik, þetta birtist mánudaginn 9. júní.

ÞAÐ tók tíma að fá aðgang að Jóni Arnóri Stefánssyni eftir leikinn í Róm í gærkvöld. Hann þurfti að afgreiða ítölsku pressuna fyrst. Ég er nú ekki sleipur í ítölskunni en landsliðsmaðurinn hljómaði vel og Ítalirnir kinkuðu kolli. Þeir skildu hann.

Jón leyndi ekki vonbrigðum sínum með úrslit leiksins. Vonir Roma um að ná að jafna metin á heimavelli eru úr sögunni. „Við erum ekki nógu „töff“ þegar á reynir. Því miður. Byrjunin var frábær en síðan fór þetta í eitthvað „rugl.“ Ég var alls ekki ánægður með leikstjórnandann okkar í þessum leik. Hann gerði ekki það sem hann á að gera. Og sóknarleikurinn var því mjög tilviljanakenndur og einhæfur. Ég kemst voðalega illa inn í leikina þegar við spilum svona og það eru fleiri leikmenn sem verða „off“ í svona aðstæðum. Það er vel hægt að taka undir orð Jóns því í síðari hálfleik virtist sama leikkerfið vera keyrt í hverri einustu sókn. Jón Arnór náði að kveikja neista í liðinu undir lok þriðja leikhluta þegar hann fiskaði ruðning og skömmu síðar skoraði hann þriggja stiga körfu í hraðaupphlaupi og kom sínu liði yfir, 46:45, og smá gæsahúð gerði vart við sig hjá íslensku blaðamönnunum.

Þessi leikur var skelfilegur
„Við höfum náð frábærum úrslitum í vetur í Meistaradeildinni gegn liðum á borð við Real Madrid frá Spáni og Panathinaikos frá Grikklandi. Við höfum farið yfir þá leiki að undanförnu og tekið það besta úr þeim. Því miður höfum við ekki náð að yfirfæra það á völlinn og þessi leikur var skelfilegur, nema kannski fyrstu 10 mínúturnar. Eftir það fóru menn inn í sína skel og gerðu allt rangt.“ Jón Arnór reifst hressilega við hinn reynda Gregor Fucka í síðari hálfleik eftir að hinn 37 ára gamli miðherji „nennti“ ekki að fara út í leikmanninn sem Jón Arnór var að dekka. „Eigum við nokkuð að vera fara í gegnum það aftur. Ég var ósáttur og lét hann heyra það,“ sagði Jón Arnór. Hann hefði kannski viljað segja að Fucka sé alltof linur undir körfunni miðað við að vera 2,16 m á hæð. Það er hann og helsti veikleiki liðsins er að miðherjar Siena eru miklu betri og kraftmeiri.

Morgunblaðið

Mynd: www.virtusroma.it

Fréttir
- Auglýsing -