spot_img
HomeFréttirForþjappan stendur aðeins á sér

Forþjappan stendur aðeins á sér

Hamar gerði góða ferð austur yfir Ölfusá í kvöld og sigraði FSu örugglega, 98-79, í 1. deild karla.. Leikurinn var nokkuð mikilvægur því með sigrinum fara Hvergerðingar upp fyrir FSu í 2. sæti deildarinnar á fleiri sigrum innbyrðis milli liðanna. Það má segja að þetta hafi verið hálfgert einvígi milli atvinnumanna liðanna, sem endaði nokkurnveginn með jafntefli því Collin Pryor skoraði 43 stig og tók 11 fráköst í liði FSu en Julian Nelson skoraði 41 og tók 11 fráköst fyrir Hamar. Það sem skildi á milli var að breiddin var meiri hjá Hamri, þrír leikmenn aðrir skoruðu 15 stig en hjá FSu komst enginn nema Pryor í tveggja stafa tölu.
 
 
Annars var leikurinn hnífjafn fram undir lok fyrri hálfleiks. FSu leiddi með einu stigi eftir fyrsta fjórðung, 23-22, og þegar innan við mínúta var eftir af hálfleiknum munaði enn einu stigi, 40-41. Þá skoruðu gestirnir þriggjastigakörfu og fengu svo boltann á silfurfati frá dómurum leiksins þegar örfáar sekúndur voru eftir og nýttu tímann til að skora neyðarþrist um leið og klukkan gall.
 
Seinni hálfleikinn byrjaði svo Hamar af miklum krafti og munurinn var kominn yfir 20 stigin áður en við varð litið, enda lak allt ofan í hjá þeim og var sama hver sleppti boltanum og hvernig, allt fór í netið. FSu-strákar rifu sig upp með mikilli baráttu og minnkuðu muninn í 10 stig en þegar síðasti leikhluti var eftir munaði 12 stigum, 60-72. FSu hélt áfram með góða baráttu og kom muninum niður í 9 stig en nær komust þeir ekki, þeim þraut örendið og Hamar sigldi þessu örugglega til hafnar í lokin.
 
Eins og áður segir var það meiri breidd og reynsla í Hamarsliðinu sem gerði útslagið. Þjálfari þess gat leyft sér að setja yfirfrakka á aðal skyttu FSu-liðsins, leikmann sem hafði engar aðrar varnarskyldur, eins og hjálparvörn, og Collin mátti skora nokkurn veginn að vild. Þessi taktík gekk upp því hinir leikmennirnir fundu ekki fjölina sína í kvöld og sóknarleikur heimamanna varð fyrir vikið þvingaður á köflum. Á móti var ekki nóg að Nelson skoraði úr nánast öllum sínum skotum, heldur þeir Bjarni Rúnar, Siggi Haff. og Þorsteinn Gunnlaugsson líka.
 
FSu liðið virðist í smá lægð um þessar mundir. Í undafarna leiki finnst ritara hafa vantað þá snerpu og kraft sem einkenndi alla leikmenn lengst af, og kom liðinu í óskastöðu við topp deildarinnar. Þó viljinn sé nægur er eins og krafturinn skili sér ekki lengur alveg að fullu út í útlimina – eins og forþjappan sendi ekki næga aukaorku í brunahólfið. Það er skiljanlegt, allir leikmennirnir nema þrír eru undir miklu aukaálagi í toppbaráttu í deildarkeppni unglingaflokks og komnir í undanúrslit í bikarkeppni, nokkrir spila líka í drengjaflokki og því margir leikirnir, stundum annan hvern dag. Eftir leikinn í kvöld býður undanúrslitaleikur í bikarkeppni unglingaflokks á miðvikudaginn. Þó gaman sé að vera með ungt lið og gefa efnilegum strákum tækifæri í meistaraflokki, þá er það annað en að þeir séu í burðarhlutverki og toppbaráttu á öllum vígstöðvum og spurning hvenær álagið er orðið of mikið. Það er óhollt og tekur sinn toll til lengdar.
 
Hamar hefur nú náð 2. sætinu í bili, er á góðu róli og til alls líklegur. Fyrir FSu er fráleitt öll nótt úti. Liðið þarf þó greinilega á aukakrafti að halda fyrir lokasprettinn. Kannski smá hvíld, sem varla er þó í boði. En það sem skiptir máli er hvernig liðin verða stemmd í úrslitakeppninni.
 
Eins og fram hefur komið var Nelson nánast óstöðvandi í liði Hamars en Þorsteinn Gunnlaugsson og Bjarni Rúnar Lárusson voru einnig öflugir, báðir með 16 stig og 8 fráköst. Sigurður Hafþórsson skoraði 15 stig auk þess að taka sér bólfestu ofan í stuttbuxum Ara Gylfasonar, og kom í veg fyrir að hann fengi frítt skot allan leikinn. Þá var ánægjulegt að sjá að fleiri heimastrákar í Hveragerði eru farnir að fá traust til að taka þátt í leikjum liðsins. Mikael Rúnar Kristjánsson byrjaði nú inná eftir óralangan tíma á tréverkinu og stóð sig vel sem leikstjórnandi, og flestir ef ekki allir leikmennirnir fengu að koma inn á. Þessi nýjung í blómabænum er rós í hnappagat Hadda B.
 
Hjá FSu hefur þætti Collin Pryor verið lýst. Ari fékk úr litlu að moða, skoraði 5 stig, en tók 7 fráköst. Hlynur Hreinsson skoraði 8 stig, stjórnaði liðinu vel en við aðstæður sem þessar þarf hann að ógna meira fyrir utan þriggjastigalínuna. Yngriflokkastrákarnir voru ekki sjálfum sér líkir í kvöld. Elli skoraði 7 stig, Þórarinn 6, Maciej 4, Svavar Ingi 3, Haukur Hreinsson 2 og Fraser Malcolm 1 stig.
 
 
Mynd/ Guðmundur Karl – Sunnlenska.is
Umfjöllun/ Gylfi Þorkelsson
 
Staðan í 1. deild karla
Deildarkeppni
Fréttir
- Auglýsing -
Nr. Lið L U T S Stig/Fen Stg í L/Fen m Heima s/t Úti s/t Stig heima s/f Stig úti s/f Síðustu 5 Síð 10 Form liðs Heima í röð Úti í röð JL
1. Höttur 18 15 3 30 1517/1332 84.3/74.0 9/1 6/2 89.2/75.2 78.1/72.5 4/1 9/1 -1 -1 +3 2/0
2. Hamar 17 11 6 22 1469/1414 86.4/83.2 6/3 5/3 90.1/88.1 82.3/77.6 4/1 5/5 +1 -1 +2 3/0
3. FSu 17 11 6 22 1501/1416 88.3/83.3 6/3 5/3 89.7/82.9 86.8/83.8 3/2 6/4 -2 -1 -1 1/1
4. ÍA 15 9 6 18 1127/1179 75.1/78.6 4/2 5/4 78.7/76.7 72.8/79.9 3/2 6/4 +3 +1 +2 5/0
5. Valur 16 9 7 18 1301/1223 81.3/76.4 5/3 4/4 79.5/72.8 83.1/80.1 4/1 6/4 +2 +2 +1 2/2