Halla Tómasdóttir forseti Íslands og Björn Skúlason, eiginmaður hennar mættu á æfingu hjá íslenska liðinu í Ásgarði í dag.
Liðið heldur af landi brott komandi fimmtudag til Litháen, þar sem þeir munu mæta heimamönnum á föstudag, en þaðan mun liðið svo ferðast til Katowice í Póllandi þar sem lokamót EuroBasket mun fara fram.
Forsetahjónin spjölluðu við leikmenn Íslands, fengu landsliðsbúninga gefna og tóku nokkur skot á körfurnar.
Undir loka heimsóknarinnar ávarpaði Halla alla leikmenn og starfslið liðsins. Stappaði hún þar stálinu í liðið og nefndi að mögulega væru íslendingar bestir þegar á brattan væri að sækja. Þá nefndi hún sameiningarmátt körfubolta og benti á hversu mikið Grindvíkingar hefðu hallað sér að íþróttinni þegar náttúruhamfarir dundu á heimabyggð þeirra fyrir tveimur árum. Undir lokin sló eiginmaður hennar Björn á létta strengi og benti leikmönnum liðsins á hversu mikilvægt það væri að fylgja á eftir þegar boltanum er skotið.
Hér fyrir neðan má sjá skilaboð forsetahjónanna til Íslands sem og færslu KKÍ með nokkrum myndum frá heimsókninni.



