spot_img
HomeFréttirForseti FIBA World heiðursgestur á afmælis- og lokahófi KKÍ

Forseti FIBA World heiðursgestur á afmælis- og lokahófi KKÍ

Forseti FIBA World, Yvan Mainini er staddur á Íslandi sem sérstakur gestur á afmælis- og lokahófi KKÍ sem verður á Broadway á morgun, laugardaginn 30. apríl. Mainini var forseti franska körfuboltasambandsins til margra ára og varaforseti FIBA Europe áður en hann varð forseti alheimssamtakanna. Það er mikill heiður fyrir Ísland að forseti heimssamtaka körfuboltans komi hingað í heimsókn. Aðildarlönd FIBA World eru 213 og um 450 milljónir einstaklinga eru innan vébanda samtakanna. www.kki.is greinir frá.
Pétur Karl Guðmundsson fyrsti Evrópubúinn til að leika í NBA deildinni er einnig staddur á Íslandi í tilefni afmælishófsins sem og æfingabúðanna sem verða um helgina. Pétur verður sérstakur heiðursgestur KKÍ á hófinu.
 
Blaðamannafundur í Dalhúsum Grafarvogi laugardaginn 30. apríl klukkan 12:30
KKÍ mun efna til blaðamannafundar í þessu tilefni en þar munu Yvan Mainini forseti FIBA World, Ólafur Rafnsson, forseti FIBA Europe, Hannes S. Jónsson formaður KKÍ og Pétur Karl Guðmundsson sitja fyrir svörum, en á sama stað fara fram æfingabúðir fyrir hávaxna leikmenn þar sem 60 krakkar hafa verið boðaðir og Pétur Guðmundsson er meðal þjálfara.
 
 
Fréttir
- Auglýsing -