spot_img
HomeFréttirFormennirnir ætla sér alla leið

Formennirnir ætla sér alla leið

11:07
{mosimage}

 

 

Nú er bullandi vertíð hjá formönnum Körfuknattleiksdeildanna og ekki síst hjá þeim sem enn eru með lið í úrslitakeppninni. Kapparnir Jón Örn Guðmundsson og Birgir Már Bragason eru formenn liðanna sem mætast í oddaleiknum í Toyotahöllinni í kvöld og þeir eru báðir sannfærðir um sigur sinna manna. Jón Örn er fyrrum leikmaður og þjálfari ÍR og núverandi formaður KKD ÍR en Birgir Már er formaður KKD Keflavíkur. Keflavík og ÍR mætast kl. 19:15 í kvöld og það lið sem ber sigur úr býtum mætir Snæfellingum í úrslitarimmunni. Víkurfréttir náðu tali af formönnum deildanna sem báðir kváðust spenntir fyrir kvöldinu. Þetta kemur fram á vef Víkurfrétta, www.vf.is

 

Þurfum að stjórna tempóinu

 

,,Þetta eru akkúrat leikirnir sem mönnum langar til að spila. Þrátt fyrir að ÍR hafi tapað tveimur síðustu leikjum er þetta engu að síður úrslitaleikur í kvöld. Við tökum bara einn leik í einu og spáum í framhaldið að þeim leik loknum,” sagði Jón Örn en hvað þarf að koma til hjá ÍR-ingum í kvöld eftir tvo slaka leiki í röð?

 

,,Það er alveg ljóst að ÍR þarf að berja frá sér og vera harðari en undanfarið og ná að stjórna tempóinu í leiknum. Ef við leyfum Keflavík að spila á sínu hraða tempói þá vinnur Keflavík en ef við stjórnum þá er ég sannfærður um okkar sigur,” sagði Jón Örn sem segir seríuna hafa verið frábæra til þessa.

 

,,Serían á móti KR var mögnuð og þessi gegn Keflavík er alls ekki síðri. Áhorfendur hafa fjölmennt á leikina og allt verið í miklu bróðerni í stúkunni, ekkert skítkast milli fylkinga og allir að hafa gaman saman,” sagði Jón Örn sem verður mættur í Toyotahöllina um klukkutíma fyrir leik til þess að næla sér í gott sæti. ,,Það verður eflaust pakkfullt í Keflavík og ég ætla ekki að gefa upp neinar tölur en ég spái mínum mönnum sigri eftir jafnan og spennandi leik.”

 

Barátta frá fyrstu mínútu

 

Birgir Már Bragason viðurkenndi fúslega að hann væri með hnút í maganum fyrir kvöldinu. ,,Það er bara partý, allt á fullu og stressið byrjað og maður er með hnút í maganum og þeir hafa verið ansi margir að undanförnu,” sagði Birgir léttur í bragði sem á von á hörkuleik. ,,Ég vona að við tökum þetta í fullu húsi með hörkustemmningu og þá gæti þetta orðið einn besti leikur vetrarins,” sagði Birgir en hvað sér formaðurinn í spilunum fyrir kvöldið?

 

,,Blóð, svita og tár. Þetta verður barátta frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Ég er ánægður með það sem Hreggviður Magnússon leikmaður ÍR sagði í Fréttablaðinu í dag. Hann ætlar að skilja hjartað eftir á vellinum, það er bara flott, hann er búinn að gefast upp og hefur engu skilað að undanförnu. Við höfum verið að leika hörkuvörn og okkar besta bolta og stemmningin í liðinu er mjög jákvæð,” sagði Birgir sem ætlar að vinda spennuna ofan af Sigurði Ingimundarsyni þjálfara Keflavíkur í dag.

 

,,Ég ætla með þjálfarann í skvass og vinna hann þar til að brjóta hann niður fyrir kvöldið svo hann kemur dýrvitlaus í leikinn,” sagði Birgir léttur í bragði en bætti við. ,,Við ætlum okkur alla leið!”

 

www.vf.is

Mynd: Snorri Örn Arnaldsson

Fréttir
- Auglýsing -