Westagate í Las Vegas gaf á dögunum út "over/under" sigur viðmið fyrir komandi leiktíð í NBA deildinni. Fátt er sem að kemur á óvart á toppi listans. Golden State Warriors, sem skiluðu besta vinningshlutfalli sögunnar á síðasta tímabili er spáð áframhaldandi velgengni. Þó er gert ráð fyrir að þeir tapi eilítið fleiri leikjum, en þeim er spáð 66.5 sigrum.
10 sigurleikjum fyrir aftan Golden State, eða með 55.5 sigra, er gert ráð fyrir að bæði ríkjandi meistarar í Cleveland Cavaliers og San Antonio Spurs verði.
Hástökkvarar listans þetta árið eru lið Minnesota Timberwolves (41.5 sigrar) og Utah Jazz (47.5) En bæði eru liðin full af hæfileikaríkum ungum mönnum sem hafa þó fengið einhverja reynslu í deildinni s.s. nýliða ársins á síðasta tímabili Karl Anthony Towns (Min) og hinn franska Rudy Gobert (Utah)
Veðbankinn er einnig tilbúinn að spá versta liði síðustu ára, hyldýpi Philadelphia 76ers, heila 17.5 sigurleiki í viðbót við þá 10 sem að þeir unnu í fyrra. Gert er ráð fyrir að áhrif hins ástralska Ben Simmons og stóra mannsins Joel Embiid skili þeim í 27.5 sigurleik þetta tímabilið. Fróðlegt verður að sjá hversu lengi inn í tímabilið sú bjartsýni á eftir að ganga.
Liði Brooklyn Nets er spáð botnsæti deildarinnar með aðeins 20.5 sigurleiki. Það er þó á svipuðu reki og þeir voru á síðasta tímabili, en þá voru þeir með þriðja versta árangur allra liða, 21 sigur.
Einnig er farið að taka við veðmálum í það hver á eftir að verða meistari að tímabili loknu. Þar hefur mestum pening verið varið á að ofurliðið Golden State Warriors verði meistarar. Flest veðmálanna hafa þó verið sett á lið New York Knicks, en það er annað ofurlið samkvæmt liðsmanni þess Derrick Rose eftir að hann og Joakim Noah komu þangað í sumar frá Chicago Bulls.
Hér að neðan má sjá lista allra liðanna og hvað Westgate spáir þeim mörgum sigrum í vetur.