spot_img
HomeFréttirFlemming Østergaard: Ætla að gera körfubolta stærri en handbolta í Danmörku

Flemming Østergaard: Ætla að gera körfubolta stærri en handbolta í Danmörku

20:00

{mosimage}

Það er ekki víst að allir Íslendingar viti hver Flemming Østergaard er, en hafi fólk fylgst með dönskum fréttum síðustu 5 árin, þá kveikir nafnið Don Ø kannski hjá einhverjum. Don Ø eins og hann er oftast kallaður er stjórnarformaður Parken Sport&Entertainment sem á og rekur Parken, stærsta íþróttaleikvang Danmerkur þar sem knattspyrnulandsliðið leikur flesta sína heimaleiki auk þess sem þarna eru haldnir margir stórir tónleikar á ári. Robbie Williams, U2 og REM eru dæmi um þá sem hafa troðið þarna upp.

Auk þess að reka völlinn rekur félagið knattspyrnu- og handboltalið FCK, FC København. Knattspyrnuliðið hefur verið í toppbaráttunni í Danmörku í mörg ár og komst m.a. í riðlakeppni Meistaradeildarinnar fyrir ári og afrekaði það að vinna Manchester United á heimavelli. Handboltaliðið hefur verið í uppbyggingu undan farin ár og nú allra síðustu ár hefur liðið verið í toppbaráttunni í Danmörku og leikið vel í Evrópukeppni. Þegar þetta er skrifað eru þeir efstir í dönsku deildinni og unnu fyrri undan úrslitaleik sinn í EHF keppninni á útivelli. Með liðinu leikur íslenski landsliðsmaðurinn Arnór Atlason.

Á þessu má sjá að það sem Parken S&E tekur sér fyrir hendur malar gull, Don Ø er einn af þeim ríku í Danmörku sem hefur mikil áhrif í íþróttaheiminum. En afhverju er ég að skrifa um þennan kappa á karfan.is? Jú, á dögunum sagði Don Ø í viðtali í Politiken að næsta takmark hjá honum væri að byggja upp körfuboltalið og gera körfubolta stærri en handbolta í Danmörku. Þetta eru stór orð, ekki síst í ljósi þess að fyrir stuttu var birt könnun í Danmörku sem sagði að Danir vilja frekar fylgjast með handboltalandsliðum sínum en knattspyrnulandsliðum.

Don Ø segir að það sé eðlilega næsta skref hjá Parken S&E að stofna körfuboltadeild. „Körfubolti er 10 sinnum stærri en handbolti í heiminum. Það vekur áhuga minn þegar ég sé áhugann á hinum ýmsu körfuboltamótum. Um leið og gæði körfuboltans aukast hér heima þá kemur fólk að horfa. Ég elska körfubolta, þetta er dýrleg íþrótt“ segir kappinn.

En það lítur ekki út fyrir að körfuboltaliðið verði stofnað fyrr en búið er að byggja nýja höll við hliðina á Parken, nýja höllin mun heita Capinordic Arena og verður að öllum líkindum tilbúin árið 2010.

Áður fyrr sagði Don Ø að næsta íþrótt sem FCK myndi leggja áherslu væri íshokký, það átti jafnvel að koma á undan handbolta. Á þeim tíma var körfubolti langt því að vera áhugaverður hjá honum og á tímum BFC, BF Copenhagen, hafði hann engan áhuga á verkefninu. BFC var félag sem var stofnað við samstarf fjögurra félaga í Kaupmannahöfn og átti að ná alþjóðlegum árangri en sumir muna eflaust eftir gjaldþroti þeirra og eftirköstum þess.

En nú hefur Don Ø ekki áhuga á íshokký lengur, ekki síst vegna lítilla tekjumöguleika þar. Hann segist sjá möguleikann á að gera körfubolta vinsælan í Danmörku því áhuginn sé mikill meðal unglinga. Hann hefur fylgst með körfuboltamótum hjá unglingum og segir að þau séu ekkert minni í sniðum en handboltamót. Það sé bara spurning um að markaðssetja hlutina rétt.

Don Ø telur líka að það séu miklir möguleikar á að gera körfuboltann stóran í Danmörku, í dag eru skráðir 11500 iðkendur og því möguleikarnir miklir. Hvert sem litið er í Evrópu er körfubolti verulega stærri en handbolti, afhverju getur hann það ekki í Danmörku, spyr hann.

Það er ljóst að til að geta keppt í dönsku úrvalsdeidinni þarf Don Ø að leita að félagi sem hefur keppnisleyfi í deildinni til að vinna með eða yfirtaka. Í grein Politiken er talað við forsvarsmenn nokkurra félaga í Kaupamannahöfn sem allir sjá þessi orð Flemmings sem jákvæða frétt sem þeirra félag myndi íhuga ef leitað yrði til. Þeir óttast ekki að það að svo ríkt félag komi inn í deildina hafi þau áhrif að félagið verði yfirburða lið í krafti peninga. Don Ø er skynsamari en svo að hann búi til ofurlið, hann passar sig á að öll deildin verði sterkari.

Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist þegar FCK verður komið með körfuboltalið, hvort Danmerkurmeistaratitillinn yfirgefur Jótland í fyrsta skipti síðan BFC var og hét.

Hér má lesa grein Politiken.

[email protected]

Mynd: Jeppe Carlsen

Fréttir
- Auglýsing -