Það er ekki bara Allen Iverson sem er farinn í víking til Tyrklands úr NBA-deildinni en á dögunum samdi Sean May við efsta lið Tyrknesku deildarinnar, Fenerbache Ulker. May sem hefur leikið síðustu fimm tímabil í NBA er 26 ára gamall en hann lék með Charlotte og Sacramento á ferli sínum.
May, sem varð háskólameistari með Norður Karólínu skólanum árið 2005, var valinn nr. 13 í nýliðavalinu 2005 af Charlotte Bobcats og var einn fjögurra leikmanna frá Norður Karólínu háskólanum sem var valinn þetta árið. Miklar væntingar voru gerðar til hans en hann var valinn besti leikmaður úrslitanna í háskólaboltanum 2005.
Meiðsli einkenndu feril hans í NBA og náði hann aðeins á þessum fimm árum að leika 119 leiki og missti m.a. af öllu 2007-08 tímabilinu.
Hann samdi við New Jersey Nets í sumar en liðið lét hann frá sér í september þar sem líkamlegt ástand hans var ekki nægilega gott.
May gengur til liðs við Fenerbache sem er efst í Tyrknesku deildinni með 7 sigra úr jafn mörgum leikjum. Liðið er einnig efst í C-riðli í meistaradeildinni ásamt ítalska stórveldinu Siena en Tyrkirnir eiga víst sæti í 16-liða úrslitum meistaradeildarinnar.
Mynd: Algeng sjón á ferli Sean May. Hér situr hann borgaralega klæddur á leik Charlotte ásamt eiganda liðsins Michael Jordan. May var mikið meiddur á ferli sínum og náði því aðeins að leika 119 leiki af 410 á fimm árum hans í NBA.




