spot_img
HomeFréttirFlaggskipið með sigur í tvíframlengdum leik

Flaggskipið með sigur í tvíframlengdum leik

Vestri-b, oft nefnt sem flaggskipið, gerði gott strandhögg á Grundarfirði í gær og lögðu heimamenn þar að velli, 73-70, eftir tvíframlengdan leik í 3. deild karla þrátt fyrir að tefla einungis fram 6 leikmönnum í leiknum.

Gangur leiksins
Það leit ekki vel út fyrir gestina að vestan á upphafsmínútunum en Grundfirðingar, með Guðna Sumarliðason í fararbroddi, skoruðu 13 fyrstu stig leiksins og þar af skoraði Guðni 8 af þeim. Vestra-menn mættu þó loksins andlega til leiks eftir að hafa fengið smá hárþurkumeðferð í lékhléi á fimmtu mínútu og löguðu stöðuna í 22-14 fyrir lok fyrsta leikhluta.

Annar leikhluti fer svo seint í sögubækurnar fyrir áferðarfallegan körfuknattleik en bæði lið skoruðu einungis 9 stig í honum. Staðan í hálfleik 31-25 og heimamenn enn í bílstjórasætinu.

Í þriðja leikhluta náði Vestri muninum fljótlega niður í 3 stig, 33-30, áður en heimamenn stigu á bensíngjöfina og skoruðu 15 af næstu 18 stigum leiksins og náðu sinni stærstu forustu í leiknum, 48-33. Jóhann Jakob Friðriksson náði þó að laga stöðuna örlítið með þriggja stiga körfu undir lok hans og staðan fyrir fjórða fjórðung 48-36.

Jóhann var ekki hættur og bætti við fyrstu fjórum stigum Vestra í fjórða leikhluta. Í stöðunni 52-40 hrökk svo flaggskipið í gang og sett 11 ósvöruð stig á heimamenn og staðan skyndilega orðin 52-51 þegar 5 mínútur voru eftir. Aðalsteinn Jósepsson, spilandi þjálfari Grundarfjarðar, svaraði með 5 stigum í röð fyrir heimamenn en Jóhann Jakob hélt Vestra inn í leiknum með tveimur ósvöruðum körfum í röð. Kári Gunnarsson kom svo Grundarfirði í vænlega stöðu, 59-55, þegar innan við mínúta var eftir. Hinn síungi Baldur Ingi Jónasson var þó hetja Vestra á lokasekúndunum. Fyrst fær hann þrjú vítaskot eftir að brotið er á honum í þriggja stiga skoti og setur hann niður tvö þeirra. Eftir mislukkaða sókn hjá heimamönnum þá er aftur brotið á Baldri þegar fáeinar sekúndur eru eftir og setur hann niður bæði vítaskotin og jafnar leikinn 59-59. Grundarfjörður tekur leikhlé og fær innkast á miðlínu. Það endar með leikfléttu þar sem Guðni Sumarliðason fær nánast galopið skot undir körfunni en honum bregst bogalistinn og boltinn rúllar af hringnum.

Í fyrstu framlengingunni nær Vestri forustunni í fyrsta sinn í leiknum með tveimur vítum frá Baldri Inga. Heimamenn ná þó forustunni fljótlega aftur og leiða með 2 stigum, 66-64, þegar innan við 5 sekúndur eru eftir. Þá er brotið aftur á Baldri Inga í þriggja stiga skoti og fær hann tækifæri til að koma Vestra yfir. Hann setur fyrstu 2 vítin ofan en það þriðja klikkar. Jóhann Jakob nær frákastinu en nær ekki skora úr þröngri stöðu áður en klukkan gellur og því framlengt aftur.

Í annari framlengingunni voru gestirnir að Vestan talsvert sprækari þrátt fyrir að keyra einungis á 6 leikmönnum í leiknum og skoruðu 6 fyrstu stigin. Heimamenn náðu aldrei að brúa það bil og enduðu leikar með 3 stiga sigri flaggskipsins sem fagnaði gífurlega í leikslok.

Hetjurnar
Þriggja stiga skyttan síunga, Baldur Ingi Jónasson, steig upp á ögurstundu en hann skoraði 17 af 23 stigum sínum í fjórða leikhluta og fyrstu framlengingunni. Hann skaut gestunum einnig inn í báðar framlengingarnar frá vítalínunni en samtals setti hann niður 8 af 10 vítum sínum í leiknum.

Jóhann Jakob Friðriksson, hinn rúmlega 2 metra hái miðherji Vestra, lék allar 50 mínútur leiksins og var oft á tíðum eins og maður á meðal leikskólabarna í vellinum enda illviðráðanlegur undir körfunni og endaði hann stigahæstur í leiknum með 31 stig auk þess að verja fjöldan allan af skotum.

Helstu skorarar
Guðni Sumarliðason var besti maður Grundarfjarðar í leiknum. Hann hitti vel framan af áður en þreytan fór að taka í og endaði með 19 stig. Bróðir hans, Sæþór Sumarliðason, var einnig á skotskónum og setti niður fjórar þriggja stiga körfur og 16 stig alls. Przemyslaw “Semmi” Þórðason kom næstur með 11 stig og Aðalsteinn Jósepsson skoraði 9 stig.

Hjá Vestra var Jóhann Jakob sem fyrr segir stigahæstur með 31 stig og Baldur Ingi kom næstur með 23 stig. Sveinn Rúnar Júlíusson nýtti sér einnig hæðamuninn sem hann hafði á varnarmenn heimamanna og skoraði 12 stig fyrir Vestra.

Fréttir
- Auglýsing -