Ísland fór ansi illa með Noreg í U16 ára flokki drengja er liðin mættust á Norðurlandamóti yngri flokka sem fram fer í Finnlandi þessa dagana. Umfjöllun um helstu þætti leiksins má finna hér að neðan:
Gangur leiksins:
Leikurinn var í jafnvægi fyrstu mínúturnar þar sem Ísland fann ekki taktinn varnarlega. Þegar það small þá var ekki aftur snúið. Íslenska liðið pressaði hátt á boltann og gaf Noregi engan tíma til að stilla upp og spila sinn bolta. Ísland gjörsamlega valtaði yfir Noreg í þegar það datt í gírinn og fékk auðveldar körfur trekk í trekk. Noregur tapaði 24 boltum í fyrri hálfleik og staðan 56-26 í hálfleik.
Noregur setti ekki stig fyrstu sjö mínútur þriðja leikhluta og Ísland bætti í forystu sína. Frammistaða Íslands féll aðeins niður í lok þriðja leikhluta en slakt norskt lið tókst ekki að minnka muninn nema um ögn.
Orkan féll um of hjá Íslandi í byrjun fjórða leikhluta er Noregur tók mörg sóknarfráköst. Munurinn var aftur á móti orðinn of mikill til að Noregur gæti sett saman í einhverskonar endurkomu. Lokastaðan 87-47 sigur Íslands sem hefði klárlega getað verið stærri hefði liðið haldið tampi allan leikinn.
Hetjan:
Eins og gefur að skilja í svo stórum sigri skiluðu margir leikmenn stórum tölum. Varnarlega voru Kolbeinn Fannar og Veigar Páll öflugir en það þarf að taka út þátt Dúa Þórs Jónssonar í leiknum. Það má líkja frammistöðu hans við Kyrie Irving í þessum leik, ef hann komst í 1 á 1 aðstöðu sóknarlega þá undantekningarlaust vann hann það og kláraði með körfu. Hann endaði með 28 stig og 3 stolna bolta á 22 mínútum.
Kjarninn:
Orkan á vörn Íslands var til fyrirmyndar í dag. Menn gáfu sig allan í verkefnið allan tímann, stálu ótal boltum og ýtti Noregi úr nákvæmlega öllum sínum aðgerðum. Liðið var ótrúlega klókt að ná sér í auðveldar körfur sóknarlega hvort sem það var úr hraðaupphlaupum eða uppstiltri sókn.
Án þess að taka nokkuð af íslenska liðinu þá er norska liðið ansi slappt. En það þarf að gíra sig upp í svona leiki og það gerði Ísland. Þeir héldu orkunni og frammistöðunni nánast allan leikinn. Næsti leikur Íslands er gegn Svíþjóð sem einmitt sigraði norska liðið með sextíu stigum í gær.
Viðtöl eftir leik: