spot_img
HomeFréttirFjórir leikir í IE karla í kvöld

Fjórir leikir í IE karla í kvöld

12:48

{mosimage}

 

(Paxel og Axel taka örugglega léttan dans í Röstinni í kvöld) 

 

Fjórir leikir fara fram í Iceland Express deild karla í kvöld og eiga Suðurnesjaliðin þrjú öll heimaleiki í sjöttu umferðinni sem hefst í kvöld. Njarðvík og Grindavík leika heima í kvöld en Keflavík mætir KR í stórleik umferðarinnar annað kvöld. Allir leikir sjöttu umferðar hefjast kl. 19:15.

 

Njarðvíkingar taka á móti Stjörnunni í Ljónagryfjunni og munu heimamenn leika án bandarísks leikmanns þar sem þeir sögðu upp Charleston Long fyrir skemmstu. Félagið hefur komist að samkomulagi við Damon Bailey um að leika með liðinu og er hann væntanlegur til landsins á næstu dögum. Þá hafa einnig orðið breytingar í herbúðum Stjörnunnar þar sem þeir Steven Thomas og Muhamed Taci hafa verið sendir heim. Stjarnan fékk til sín en Maurice Ingram kom til landsins á þriðjudag og verður væntanlega í Stjörnuhópnum í kvöld.

 

Grindvíkingar taka á móti Skallagrím í Röstinni en síðustu ár hafa rimmur þessara tveggja liða verið hin besta skemmtun og skemmst að minnast oddaleiks liðanna í úrslitakeppninni þar sem Grindavík marði magnaðan útisigur og komust áfram í undanúrslit gegn Njarðvíkingum. Skallagrímsmenn hafa átt erfitt uppdráttar það sem af er tímabilinu og sitja í 9. sæti deildarinnar með tvo sigra og þrjú töp eftir fimm umferðir.

 

{mosimage}

(Sigurður Þorvalsson, Snæfell)

 

Í Hólminum virðast heimamenn vera að finna taktinn en Snæfellingar rétt mörðu nauman útisigur gegn Hamri í Hveragerði í síðustu umferð þar sem Justin Shouse setti niður 26 stig. Snæfell fær Tindastól í heimsókn í kvöld og geta með sigri jafnað Stólana að stigum. Stólarnir máttu sætta sig við tap á heimavelli gegn Grindavík í síðustu umferð en þar var Marcin Konarzewski fyrirferðamestur með 25 stig og 15 fráköst.

 

Reykjavíkurliðin ÍR og Fjölnir mætast svo í Seljaskóla í kvöld en talsverðar breytingar hafa orðið á báðum liðum þar sem Nemanja Sovic fór úr Fjölni í Breiðablik og ÍR-ingar sendu þrjá erlenda leikmenn heim. Bandaríkjamaðurinn Ray Cunningham lék sinn fyrsta leik með ÍR gegn Keflavík í síðustu umferð en hann kom til landsins á leikdegi og því vart hægt að sjá hvað í honum bjó í þeim leik. Cunningham lék í 15 mínútur gegn Keflavík og gerði 5 stig í stórtapi ÍR í Sláturhúsinu. Fjölnir situr nú á botni deildarinnar og þurfa nauðsynlega á sigri að halda en ÍR er í 7. sæti með 4 stig.

 

Umferðinni lýkur svo annað kvöld þegar Keflavík fær KR í heimsókn og Hamar halda Norður til Akureyrar og mæta heimamönnum í Þór.

 

Staðan í deildinni

 

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -