spot_img
HomeFréttirFjörið hefst á morgun!

Fjörið hefst á morgun!

Vorboðinn ljúfi, já úrslitakeppnin hefst annað kvöld. Loksins komið að þessu og jafnvel veðurguðirnir hljóta að taka við sér í kjölfarið enda ekki hægt að setja þessa eldheitu keppni af stað í einhverjum kulda og trekki. Deildarmeistarar KR og Njarðvík úr fjórða sæti ríða á vaðið þetta árið, KR tekur á móti Grindavík og Njarðvíkingar frá Stjörnuna í heimsókn.
 
 
Hér að neðan förum við yfir rimmurnar sem eru framundan og rýnum aðeins í liðin:
 
(1) KR – (8) Grindavík
 
Þessi tvö lið hafa skipt Íslandsmeistaratitlinum bróðurlega á milli sín síðustu fjögur leiktímabil. Flestir veðbankar (sem eru að vísu ekki til á Íslandi) hallast að sigri KR í seríunni. Ef eitthvað lið í þessari úrslitakeppni var sýnd veiði en ekki gefin þá er það Grindavík og það vita KR-ingar mætavel. Við höfum Pavel í meiðslum og Ólaf Ólafsson í lungnabólgu en þið getið alveg hengt ykkur á það að báðir eiga eftir að koma við sögu í þessari seríu. Það er algjörlega klárt mál!
 
Fyrri deildarleikur liðanna fór 118-73 fyrir KR í DHL-Höllinni. Það var vitaskuld nokkuð öðruvísi lið hjá gulum en mætir til leiks þessa úrslitakeppnina. Í síðari deildarleiknum kastaði Grindavík frá sér sigrinum með smjördeigsfingrum sínum og það sveið…líklega svo mikið að eitt sigursælasta lið landsins síðustu ár finnur leið til að leggja KR að velli þessi 8-liða úrslitin en hvort það gerist þrisvar sinnum skulum við láta liggja á milli hluta.
 
Karfan.is ræddi við Finn Frey Stefánsson þjálfara KR
 
Karfan.is ræddi við Sverri Þór Sverrisson þjálfara Grindavíkur
 
Leikdagar í 8-liða úrslitum KR-Grindavík
KR(1) – Grindavík(8)
Leikur 1 Fimmtudagur 19. mars kl. 19.15 KR-Grindavík
Leikur 2 Sunnudagur 22. mars kl. 19.15 Grindavík-KR
Leikur 3 Fimmtudagur 26. mars kl. 19.15 KR-Grindavík
Leikur 4 Sunnudagur 29. mars kl. 19.15 Grindavík-KR ef þarf
Leikur 5 Fimmtudagur 2. apríl kl. 19.15 KR-Grindavík ef þarf
 
 
(2) Tindastóll – (7) Þór Þorlákshöfn
 
Hér mætast „Klæki“ og „Klóki“ á þjálfarastólum. Israel Martin verðskuldað valinn besti þjálfari síðari hluta Domino´s deildarinnar enda stýrt nýliðum Tindastóls upp í 2. sæti deildarkeppninnar. Benedikt að sama skapi er þekktur bragðarefur í bransanum og það verður ekki síður spennandi fyrir vikið að fylgjast með hliðarlínunni sem og því sem fram fer á parketinu í þessari seríu. Einnig verður blásið til „Smooth Criminals“ – veislu í þessu einvígi þar sem mætast tveir af þeim liprari, Tómas Heiðar Tómasson og Darrell Lewis, svægi gríðarsterkt í þessu (afsakið sletturnar) „match-up-i.“
 
Sitthvor heimasigurinn féll hjá liðunum í deildarkeppninni, flottur spennuslagur í Icelandic Glacial Höllinni þar sem Grétar Ingi eignaði sér teiginn en rútuferðin í Skagafjörð fór örugglega illa í Þórsara síðastliðinn októbermánuð þar sem Tindastóll vann 20 stiga sigur. Stuðningssveitir beggja liða eru öflugar, á lífi eru Stólamenn sem hafa hátt á pöllunum og margir velta því fyrir sér nú hvort Græni drekinn eigi í sér endurkomu en það hefði mikið að segja fyrir Þórsara.
 
Karfan.is ræddi við Grétar Inga Erlendsson leikmann Þórs
 
 
Karfan.is ræddi við Israel Martin þjálfara Tindastóls
 
Leikdagar í 8-liða úrslitum Tindastóll-Þór Þorlákshöfn
Tindastóll(2) – Þór Þ.(7)
Leikur 1 Föstudagur 20. mars kl. 19.15 Tindastóll-Þór Þ.
Leikur2 Mánudagur 23. mars kl. 19.15 Þór Þ.-Tindastóll
Leikur 3 Föstudagur 27. mars kl. 19.15 Tindastóll-Þór Þ.
Leikur 4 Mánudagur 30. mars kl. 19.15 Þór Þ.-Tindastóll ef þarf
Leikur 5 Fimmtudagur 2. apríl kl. 19.15 Tindastóll-Þór Þ. ef þarf
 
 
(3) Haukar – (6) Keflavík
  
Reynslan (Keflavík) og ungviðið (Haukar) leiða hesta sína saman í þessu einvígi. Liðin mættust í lokaumferð Domino´s deildarinnar sem var nokkuð lágreist skemmtun en þessi rimma á eftir að hækka um nokkur hundruð desibil frá deildarleiknum. Keflvíkingar mega spýta í lófana og fara að trekkja upp gamla dampinn sinn því annars blasir við þeim sumarfrí ekki mikið seinna en 2. apríl. Það hefur enginn gert þetta oftar en Sigurður Ingimundarson svo við skulum bara sjá hvernig karlinum tekst til við að trekkja upp sína menn. Á mann rennur sá grunur að það verði auðveldara fyrir Ívar Ásgrímsson að kynda undir sínum mönnum sem sópað var út úr úrslitakeppninni á síðustu leiktíð en afrekuðu það að jafna sinn besta deildarárangur í 12 ár. Haukar eru á flugi en Reykjanesbrautin hefur framkallað margar magalendingar.
 
Keflvíkingar unnu fyrri deildarleik liðanna 85-75 í Keflavík og þá var Reggie Dupree einn í búning en þessi leikur fór fram í millibilsástandinu á milli Graves og Usher hjá Keflavík svo við vitum að Keflvíkingar eiga þetta í sér. Seinni deildarleikur liðanna var svo Haukasigur 89-83 og þó aðeins sex stig hafi skilið liðin að þá voru Haukar alltaf að fara að klára þann leik. Keflvíkingar voru ekki með hausinn í verkefninu. Nú hinsvegar er runninn upp kunnuglegur tími hjá Keflavík og Haukum ber að vara sig, hér eru allar forsendur fyrir stórkostlegu einvígi. 
 
Karfan.is ræddi við Ívar Ásgrímsson þjálfara Hauka
 
Karfan.is ræddi við Sigurð Ingimundarson þjálfara Keflavíkur
 
Leikdagar í 8-liða úrslitum Haukar-Keflavík
Haukar(3) – Keflavík(6)
Leikur 1 Föstudagur 20. mars kl. 19.15 Haukar-Keflavík
Leikur2 Mánudagur 23. mars kl. 19.15 Keflavík-Haukar
Leikur 3 Föstudagur 27. mars kl. 19.15 Haukar-Keflavík
Leikur 4 Mánudagur 30. mars kl. 19.15 Keflavík-Haukar ef þarf
Leikur 5 Fimmtudagur 2. apríl kl. 16.00 Haukar-Keflavík ef þarf
 
 
(4) Njarðvík – (5) Stjarnan
 
Höfuðverkur 8-liða úrslitanna er að reyna að sjá hver niðurstaðan verður í þessu einvígi. Hér er ansi spennandi bakvarða-veisla á ferðinni. Bonneau verður illur viðureignar en eins og leikir Njarðvíkinga hafa sýnt í vetur mun gengi liðsins velta mikið á því hvað samverkamenn Bonneau muni leggja til málanna. Úr Ásgarði kemur hungraður Shouse og þó hann hafi skolað niður nokkrum bikartitlum er sá stóri enn eftir á afrekaskránni, Shouse mætir klár í þessa veislu sama hvað hver segir. Við tippum á að Stjarnan muni freista þess að nýta hæðina sér í hag og að Atkinson gæti orðið þetta „X“ sem reynist Njarðvíkingum erfitt. 
 
Garðbæingar hafa farið vel með Ásgarð í vetur og unnu fyrri deildarviðureign liðanna 87-80 í Garðabæ. Grænir höfðu sigur í Ljónagryfjunni á dögunum í síðari deildarleik liðanna 101-88 þar sem Elvar Friðriksson var mættur í búning en hans mun ekki njóta við hjá Njarðvíkingum í úrslitakeppninni. Hvaða áhrif það svo hefur þegar Njarðvíkingar mæta til leiks án Elvars gegn Stjörnunni verður einfaldlega að koma í ljós en grænir hafa heimavöllinn og hann vegur þungt.
 
Karfan.is ræddi við Friðrik Inga Rúnarsson þjálfara Njarðvíkinga
 
Karfan.is ræddi við Hrafn Kristjánsson þjálfara Stjörnunnar
 
Leikdagar í 8-liða úrslitum Njarðvík-Stjarnan
Njarðvík(4) – Stjarnan(5)
Leikur 1 Fimmtudagur 19. mars kl. 19.15 Njarðvík-Stjarnan
Leikur 2 Sunnudagur 22. mars kl. 19.15 Stjarnan-Njarðvík
Leikur 3 Fimmtudagur 26. mars kl. 19.15 Njarðvík-Stjarnan
Leikur 4 Sunnudagur 29. mars kl. 19.15 Stjarnan-Njarðvík ef þarf
Leikur 5 Fimmtudagur 2. apríl kl. 19.15 Njarðvík-Stjarnan ef þarf
 
Fréttir
- Auglýsing -