spot_img
HomeFréttirFjóri leikir í Iceland Express deild karla í kvöld

Fjóri leikir í Iceland Express deild karla í kvöld

15:26

{mosimage}

(Tekst Lárusi og félögum í Hamri að leggja Íslandsmeistarana?) 

Níundu umferð í Iceland Express deild karla lýkur í kvöld með fjórum leikjum sem allir hefjast kl. 19:15. Hamar tekur á móti KR í Hveragerði, Skallagrímur fær Njarðvík í heimsókn, Grindavík tekur á móti Snæfell og nýliðar Stjörnunnar fá bikarmeistara ÍR í heimsókn.  

Í Hveragerði mun Ágúst Sigurður Björgvinsson stýra sínum fyrsta leik með Hamri gegn KR eftir að hann yfirgaf herbúðir KR til að taka við af Pétri Ingvarssyni sem þjálfari Hamars. Hvergerðingar sitja enn á botni deildarinnar með tvö stig eftir sjö tapleiki og einn sigurleik. Nýverið gekk finnski leikmaðurinn Roni Leimu til liðs við Hamar en hann var einn sterkasti leikmaður Hauka á síðasta tímabili og því fróðlegt að sjá hvort finnski landsliðsmaðurinn geti aðstoðað Hamar við að hífa sig upp af botninum. 

Von er á hörkuslag í Grindavík þar sem heimamenn fá Snæfell í heimsókn en Grindvíkingar hafa unnið sjö deildarleiki í röð eftir að þeir töpuðu illa gegn Keflavík í fyrstu umferðinni. Grindavík er í 2. sæti deildarinnar með 14 stig en Snæfell hefur 6 stig í 6. sæti deildarinnar.  

Stjarnan fær bikarmeistara ÍR í heimsókn í Ásgarð þar sem Sigurjón Örn Lárusson mun væntanlega leika sinn síðasta leik fyrir Stjörnuna þar sem hann er að flytja til Vestmannaeyja. Til allrar lukku fyrir Stjörnumenn er tvíburabróðir Sigurjóns, Guðjón Lárusson, allur að verða betri eftir að hafa glímt við meiðsli og því ekki amalegt fyrir Garðbæinga að eiga Sigurjón í tvíriti, eða öfugt. Þá mun Nate Brown leika sinn fyrsta leik í vetur fyrir ÍR en hann var fyrr í þessari viku ráðinn til liðsins. Brown varð bikarmeistari með ÍR í fyrra svo hann er öllum hnútum kunnur í Breiðholtinu. 

Skallagrímur tekur á móti Njarðvík í Borgarnesi en með sigri í kvöld geta Skallarnir jafnað Njarðvíkinga að stigum. Grænir eru í 4. sæti deildarinnar með 10 stig en Skallagrímur hefur 8 stig í 5. sætinu. Skallarnir höfðu góðan útisigur gegn Þór í síðustu umferð en Njarðvíkingar lögðu Tindastól nokkuð örugglega í Ljónagryfjunni. Það er s.s. von á hörkugóðum leikjum í kvöld og því um að gera að fjölmenna á vellina. 

[email protected]

Mynd: [email protected]

Fréttir
- Auglýsing -