spot_img
HomeFréttirFjórði sigur nýliða Njarðvíkur

Fjórði sigur nýliða Njarðvíkur

Nýliðar Njarðvíkurkvenna sigruðu Blikakonur 74-62 í Smáranum í kvöld. Eftir nokkuð jafnan leik framan af gáfu Njarðvíkingar í í þriðja leikhluta og sigruðu leikinn með góðri vörn og baráttu, undir forrystu Aliyah Collier, sem átti sannkallaðan stjörnuleik, með 22 stig, 27 fráköst og 6 stoðsendingar. Með sigrinum er Njarðvík jafnt Keflavík og Val að stigum, með 8 stig í þriðja sæti deildarinnar.

Gangur leiksins

Leikurinn fór mjög hratt af stað og var staðan 23-21 fyrir Breiðablik í lok fyrsta leikhluta. Chelsey Moriah Shumpert fór vel af stað fyrir Blika og skoraði 9 stig í fyrsta leikhluta og Iva Georgieva setti 7 stig fyrir þær í 1. leikhluta. Stigaskorið var talsvert dreifðara hjá Njarðvík og Lavína Silva og Vilborg Jónsdóttir voru stigahæstar með sitt hvor 6 stigin eftir fyrsta leikhluta. Mikill hraði þrátt fyrir fáa tapaða bolta hjá báðum liðum, eða 2 hjá hvoru liði.

Bæði lið bættu síðan talsvert í vörnina í öðrum leikhluta, en þar skoruðu Blikar 9 stig og Njarðvík 8. Hvorugt lið var að hitta vel í öðrum leikhluta og afleit nýting hjá báðum liðum. Þá höfðu Blikar yfirhöndina í lok hálfleiks, 32-29 fyrir Breiðablik.

Í seinni hálfleik gáfu Njarðvíkurkonur í, og héldu áfram sömu vörn og í 2. leikhluta, ásamt því að setja niður 22 stig, gegn 12 stigum Blikakvenna. Sóknarfráköstin gerðu út af við Blika í 3. leikhluta, með Collier í fararbroddi. Njarðvíkingar náðu að skapa sér mikið af aukasóknum og nýjum tækifærum eftir sóknarfráköst, en Njarðvík skoraði þannig 16 stig. Auk þess voru Blikar ekki að hitta vel í 3. leikhluta, og áttu erfitt með að komast í einhvern takt við leikinn þegar skotin voru ekki að detta. Njarðvík leiddi með 7 stigum í lok 3., 44-51.

Í 4. leikhluta hélt Njarðvík sama takti og í 3. og skoruðu mikið og hittu úr þriggja stiga skotum. Þegar 5 mínútur voru eftir leiks, leiddu Njarðvíkingar með 16 stigum, og ljóst að þær yrðu sigurvegarar kvöldsins. Breiðablik náði að finna einhvern takt þegar Georgieva og Shumpert fóru að hitta undir lokin, en þá hafði Breiðablik grafið sig í ofdjúpa holu, og Njarðvík hætti ekki að hitta úr þriggja stiga skotum.

Lykillinn

Lykill sigurs Njarðvíkur var baráttan. Þær tóku 14 sóknarfráköst í seinnihálfleik gegn 5 hjá Blikum og stigu ekki á bremsurnar í seinni hálfleik, bæði í vörn og sókn. Aliyah Collier var mögnuð í þessum leik og tók tæplega 30 fráköst (27) og skilaði 42 framlagspunktum. Njarðvík kláraði leikinn með 15 fleiri fráköst en Breiðablik, og það er mjög erfitt að vinna leiki þegar svona mikill munur er þar á.

Auk þess skilaði bekkur Njarðvíkinga gríðarlega mikilvægum stigum í leiknum. Bekkjarskor Njarðvíkinga var 19, gegn 4 stigum af bekknum hjá Breiðablik. Barátta og liðsheild skilaði sigri Njarðvíkurkvenna í þessum leik.

Framlagshæstu leikmenn

Hjá Blikum endaði Chelsey Shumpert með 31 stig (41% nýting), 5 fráköst og 4 stoðsendingar, með 24 framlagspunkta. Iva Georgieva var næstframlagshæst með 12 framlagspunkta, 17 stig (25% nýting), 9 fráköst, 2 stolna bolta og 2 blokk.

Hjá Njarðvík var Aliyah Collier stjarna leiksins, með 22 stig (32% nýting), 27 fráköst og 6 stoðsendingar, með 42 framlagspunkta. Diane Diéné var næst framlagshæst með 19 punkta: 12 stig (38% nýting), 8 fráköst og 4 stoðsendingar.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Hafsteinn Snær)

Umfjöllun, viðtöl / Oddur Örn Ólafsson

Fréttir
- Auglýsing -