spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaFjölnisstúlkur sannfærandi í Ljónagryfjunni

Fjölnisstúlkur sannfærandi í Ljónagryfjunni

Njarðvík tók á móti Fjölnir í dag. Bæði lið koma löskuð til leiks. Hjá Njarðvík vantar systurnar Önnu Lilju og Láru Ösp Ásgeirsdættur. Fjölnir er í öllu verri málum, Alexandra Pedersen er með rifin krossbönd og verður ekki meira með á tímabilinu, Heiðrún Harpa er með rifin liðþófa og Sara Diljá er meidd á hné. Auk þess er Fanndís María Sverrisdóttir fjarri í þessum leik.

Bæði lið hafa fengið góðan liðstyrk, en bæði lið eru með leikmenn að láni frá Keflavík. Þær stöllur Anna Ingunn Svansdóttir (Fjölnir) og Kamilla Sól Viktorsdóttir (Njarðvík) spila sinn fyrsta leik í dag.

Fyrsti leikhluti byrjaði með látum þar sem bæði liðin skiptust á að skora. Gestirnir kláruðu leikhlutann betur og komu sér í forystu 17 – 21 fyrir annan leikhluta.

Annar leikhluti var frábær skemmtun, Njarðvíkingar kroppuðu forystu Fjölnis niður. Bæði lið að spila hraðan og skemmtilegan körfubolta, staðan í hálfleik 36 – 35. Vilborg og Jóhanna að spila vel fyrir heimastúlkur og Kamilla Sól átti frábæra innkomu. Hjá gestunum átti Fanney frábæran fyrri hálfleik og Anna Ingunn glæsilega innkomu.

Fjölnisstúlkur komu hressari út í þriðja leikhluta og skorðuðu fyrstu 13 stigin. Njarðvíkurstúlkur tóku leikhlé þegar rúmar 5 mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta og þær enn stigalausar. Njarðvík fór loks að setja niður stig en Fjölnir svaraði í hvert sinn og gekk því illa fyrir heimamenn að ná niður forystu gestanna sem bættu hægt og rólega í. Frábær vörn Fjölnisstúlkna og góður sóknaleikur kom þeim í 43 – 63 fyrir síðasta fjórðunginn.

Fjölnir gerði vel í fjórða leikhluta. Þær héldu áfram að spila af hörku og héldu Njarðvíkingum vel frá sér fram á síðustu mínútu. Sannfærandi sigur Fjölnis 59 – 78.

Byrjunarlið:

Njarðvík: Júlía Scheving Steindórsdóttir, Vilborg Jónsdóttir, Jóhanna Lilja Pálsdóttir, Eva María Lúðvíksdóttir, og Ása Böðvarsdóttir Taylor.

Fjölnir: Margrét Ósk Einarsdóttir, Fanney Ragnarsdóttir, Berglind Karen Ingvarsdóttir, Erla Sif Kristinsdóttir og Anika Lind Hjálmarsdóttir.

Þáttaskil:

Þriðji leikhluti skóp sigurinn fyrir Fjölni. Þær spiluðu frábæra vörn og bjuggu til góð færi sem þær voru að setja. Svæðisvörn Fjölnis var flækja sem Njarðvíkingar gátu ekki leyst.

Hetjan:

Kamilla Sól Viktorsdóttir átti flottan fyrsta leik fyrir Njarðvík og skilaði 22 stigum. Fanney Ragnarsdóttir var mjög góð hjá Fjölni, 30 stig og 24 í framlag. Anna Ingunn Svavarsdóttir kom sterk inn í sínum fyrsta leik og var með 25 stig og 21 í framlag.

Kjarninn:

Særð dýr geta bitið frá sér. Fjölnir er með marga sjúkraskráða. En þær sem eftir eru stigu svo sannarlega upp og kræktu sér í sanngjarnan sigur í Ljónagryfjunni.

Viðtöl við Halldór Karl Þórsson þjálfara Fjölnis, Fanney Ragnarsdóttir leikmann Fjölnis og Ragnar Halldór Ragnarsson þjálfara Njarðvíkur má skoða hér fyrir neðan.

 

Fréttir
- Auglýsing -