spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaFjölnissigur í Frystikistunni

Fjölnissigur í Frystikistunni

Hamarskonur tóku á móti Fjölni í 1. deild kvenna í dag. Leikurinn var jafn framan af og skiptust liðin á að hafa forystuna. Staðan í hálfleik var 38-32 Fjölniskonum í vil. Fjölnir hélt forrystunni en Hamar var þó aldrei langt undan og var mikil barátta í heimakonum. Það sem skildi líklega á milli liðanna voru fráköstin en Fjölniskonur voru grimmari undir körfunni og tóku 64 fráköst í leiknum á meðan Hamarskonur stigu illa út á köflum og náðu 49 fráköstum.

Dómarar leiksins voru flautuglaðir og voru Hamarskonur í villuvandræðum allan seinni hálfleikinn. Fjölniskonur voru mikið á vítalínunni og tóku heil 45 vítaskot í leiknum. Undir lok leiksins var þetta farið að minna á standandi bingó þar sem Íris, Álfhildur, Jenný og Una Bóel fóru allar útaf með 5 villur. Þá enduðu Rannveig og Perla leikinn með 4 villur.

Leikurinn endaði í sannfærandi sigri Fjölnis 83-62 en það var allur vindur úr Hamarskonum síðustu 3 mínúturnar og fengu Fjölniskonur opin skot sem þær settu niður.

Hjá Fjölni átti Fanney Ragnarsdóttir flottan leik, skoraði 20 stig, var með 5 stoðsendingar og fiskaði 11 villur. Þá var Hulda Ósk með tvennu, 11 stig og 11 fráköst. Fanndís María skoraði 13 stig og Eygló Kristín 11 stig og 9 fráköst.

Hjá Hamri var ánægjulegt að sjá Írisi Ásgeirdóttur aftur á vellinum en hún hefur verið að glíma við meiðsli frá því á undirbúningstímabilinu og kemur með mikinn kraft inná völlinn. Íris var í villuvandræðum mestallan leikinn en setti 10 stig og tók 5 fráköst. Jenný var besti leikmaður Hamars en hún skoraði 16 stig og tók 8 fráköst. Gígja Marín var með 11 stig og 6 fráköst, Álfhildur 8 stig og 7 fráköst og Dagrún Inga var með 8 stig.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -