spot_img
HomeFréttirFjölnissigur að Hlíðarenda - Arnþór við suðumark

Fjölnissigur að Hlíðarenda – Arnþór við suðumark

Valur og Fjölnir mættust í 15. umferð Iceland Express deildar karla í kvöld en leikið var í Vodafonehöllinni. Fjölnismenn voru fyrir leikinn í 7.-10. Sæti með 12 stig í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni á meðan Valsmenn eru enn án sigurs og sitja á botni deildarinnar stigalausir. Til að bæta gráu ofaná svart hafa erlendir leikmenn Valsliðsins horfið á braut hver á fætur öðrum, nú síðast Igor Tratnik, sem hélt norður á Sauðárkrók.
Það var þó ekki að sjá í byrjun leiks að heimamenn væru eitthvað mættir til að leggjast flatir fyrir gestunum úr Grafarvoginum heldur börðust þeir ötullega og uppskáru snemma 18-9 forystu með þriggja stiga körfu frá Ragnari Gylfasyni en þeir Alexander Dungal og Birgir Björn Pétursson voru að leika stóru menn Fjölnis grátt í teignum. Örvar Kristjánsson þjálfari Fjölnismanna sýndi traust og ró og leyfði strákunum sínum að spila í gegnum þessar upphafsmínútur. Vörn Fjölnismanna fór að þéttast og skilaði hún hverri hraðupphlaupskörfunni á fætur annarri þar sem Calvin O‘Neal og hinn ungi Gunnar Ólafsson létu mest að sér kveða. Fjölnir náði að jafna metin í 22-22 áður en annar ungur drengur, Benedikt Blöndal, setti niður flautukörfu og tryggði Val 24-22 forystu eftir fyrsta leikhlutann. Valsmenn voru að standa sig vel, vörnin hélt vel og sóknarleikurinn var fínn en svokölluð „transition“ vörn brást illa og skoruðu Fjölnir nánast eingöngu úr hraðaupphlaupum í leikhlutanum. Alexander Dungal var með 9 stig, Birgir Björn með 6 og Benedikt með 5 hjá Val en hjá Fjölni var Calvin með 11 og Gunnar 6.
 
Annar leikhlutinn hófst á svipuðum nótum og sá fyrsti. Lítið var að ganga upp hjá hinum öfluga framherja Fjölnisliðsins, Nathan Walkup, og lét hann mótlætið fara í taugarnar á sér og straujaði Kristinn Ólafsson í sniðskoti og uppskar réttilega óíþróttamannslega villu. Við það virtist leikurinn komast á flug og liðin hófu að skiptast á körfum á meðan tempóið jókst. Arnþór Freyr Guðmundsson, nýtti sér það vel og smellti niður tveimur þristum og Ágúst þjálfari Valsmanna sá sig knúinn að taka leikhlé í stöðunni 34-31. Áfram hélt þó Fjölnir að keyra á heimamenn og kom Walkup þeim í 44-37 með rándýrri troðslu yfir hinn unga Benedikt. Ljóst var að íþróttamennska Fjölnisliðsins var að reynast Valsmönnum erfið en þeir Calvin og Walkup eru virkilega erfiðir þegar þeir komast á ferðina. Gestirnir gengu til búningsherbergja með 9 stiga forskot, 46-37 eftir að hafa unnið fjórðunginn 24-13.
 
Valsmenn komu út í seinni hálfleikinn vopnaðir 2-3 svæðisvörn og virtust vel stemmdir. Þeir minnkuðu muninn niður í 46-41 en þá virtust Fjölnismenn átta sig á glufunum í svæðisvörninni og þeir Gunnar og hinn sjóðheiti Arnþór smelltu niður alls þremur þristum á stuttum tíma. Valsmenn voru hins vegar ekki af baki dottnir og héldu sér inni með prýðis útfærðum sóknarleik og virtust hafa náð að takmarka hraðupphlaup gestanna. Svo var þó ekki því skömmu síðar litu tilþrif dagsins ljós er Arnþór þeystist upp hægri kantinn, henti svo boltanum þéttingsfast í átt að hringnum þar sem Nathan Walkup kom aðvífandi á fullri ferð og hamraði boltanum í körfuna, staðan 57-47. Heimamenn héldu þó við sitt plan og stóðu sig ágætlega en þristunum hélt áfram að rigna yfir þá og var þar Arnþór fremstur í flokki og með sínum sjötta þrist í sjöundu tilraun kom hann Fjölni í 63-51. Sú forysta hélst út leikhlutann en staðan að honum loknum var 65-53.
 
Barningurinn hélt áfram í upphafi fjórða leikhluta en þá tóku Fjölnismenn á rás og keyrðu muninn uppí 73-56 þegar um 6 og hálf mínúta var eftir. Valsmenn tóku leikhlé til að fara yfir hlutina og héldu nú flestir að björninn væri endanlega unninn fyrir gestina. Heimamenn komu því skemmtilega á óvart með því að svara áhlaupi Fjölnis með sínu eigin áhlaupi og minnkuð muninn niður í 9 stig á 90 sekúndum, 75-66 og Fjölnismönnum greinilega brugðið og taka leikhlé. Áfram hélt Valsvörnin vel en það gerði Fjölnisvörnin líka og svo fór að gæðin í Fjölnisliðinu voru einfaldlega of mikil fyrir heimamenn og gestirnir sigldu heim nokkuð þægilegum og öruggum sigri 83-73.
 
Fjölnisliðið þurfti engan glansleik til að fara með sigur af hólmi í Vodafonehöllinni í kvöld en sýndu þó lipra takta þegar þeir tóku sig til. Um leið og liðið náði að stoppa í vörninni og keyra upp hraðann lentu heimamenn í miklu basli þar sem Calvin O‘neal fór mikinnn og lauk leik með 21 stig. Arnþór Guðmundsson var við suðumark en hann skellti niður 27 stigum (8 af 9 í þriggjastiga skotum). Nathan Walkup hefur oft átt betri leiki og stóðu varnarmenn Vals sig vel á honum en um leið og losnaði um kappann var hann ekki lengi að sýna, þeim fáu áhorfendum sem mættu í Vodafone höllina, frábær tilþrif. Gunnar Ólafsson kom einnig skemmtilega á óvart með 12 stig, en þessi ungi piltur var óhræddur við að láta vaða á körfuna og er óðum að marka sér sess í liðinu í fjarveru Árna Ragnarssona og Björgvin Ríkharðssonar. Örvar er duglegur að gefa yngri leikmönnum liðsins tækifæri og mun félagið njóta góðs af því þegar fram líða stundir.
 
Þrátt fyrir tap geta Valsmenn gengið frá borði nokkuð brattir. Þeir léku fínan körfubolta oft og tíðum og skemmtilegar fléttur þar sem þeir Alexander, Birgir og Ragnar ráku endahnútinn glöddu augað. Ljóst er að leikmannahópurinn einsog hann er í dag er ekki í úrvalsdeildarklassa en leikmennirnir létu sitt engan veginn eftir liggja þrátt fyrir það og skiluðu inn prýðisframmistöðu. Bestir heimamanna voru þeir Alexander og Birgir en þeir fóru oft illa með stóru menn gestanna undir körfunni. Alexander lauk leik með 18 stig og 6 fráköst og Birgir setti upp tröllslega tvennu með 17 stig og 15 fráköst. Hamid Dicko átti einnig fínan leik með 14 stig og Ragnar Gylfason bætti við 8. Hinn ungi Benedikt Blöndal var þó ljósið í leik heimamanna en strákurinn setti niður 11 stig og barðist eins og ljón allan leikinn.
 
Maður leiksins: Arnþór Freyr Guðmundsson
 
Eftir leikinn sitja Valsmenn áfram sem fastast á botninum án stiga og verður draumurinn um að halda sér uppi í deild þeirra bestu æ fjarlægari og nánast ómögulegur. Sjö umferðir eru eftir og 14 stig en tólf stig skilja að Valsmenn og Njarðvík/ÍR/Tindastól sem eru í 8.-10. sæti. Valsmenn eiga þó ekki á hættu að falla formlega í næstu umferð því þá mætast ÍR og Tindastóll.
 
Fjölnismenn eru hins vegar einir í 7. sæti eftir sigurinn og falldraugurinn fjarlægist um leið og möguleikinn á úrslitakeppninni eykst.
 
Punktar:
• Góðir dómarar leiksins voru þeir Sigmundur Már Herbertsson og Jón Guðmundsson
• Austin Magnús Bracey kom ekkert við sögu hjá heimamönnum og hjá gestunum sat Björgvin Hafþór Ríkharðsson ásamt Árna Ragnarssyni í borgaralegum klæðnaði á bekknum.
• Fáir áhorfendur mættu í Vodafonehöllina að þessu sinni og voru þeir langflestir á bandi gestanna úr Grafarvoginum.
• Birgir Björn virðist vera mikill áhugamaður um dómgæslu þar sem hann og Jón dómari áttu skemmtilegt tal um hinn fræga ósýnilega „sívalning“ leikmanns en það ku vera það svæði í kringum leikmanninn sem hann á rétt á.
• Í næsta leik fer botnlið Vals í heimsókn til toppliðs Grindavíkur á mánudaginn n.k. en Fjölnir fær Hauka í heimsókn á sunnudaginn þar sem mikið er undir hjá báðum liðum.
 
Umfjöllun/ Finnur Freyr Stefánsson
Ljósmynd/ Björn Ingvarsson
Fréttir
- Auglýsing -