Breiðablik leikur í 1. deild karla á næstu leiktíð eftir 81-93 ósigur gegn Fjölni í Iceland Express deild karla í kvöld. Blikar voru á síðasta séns fyrir leikinn, þeir byrjuðu vel en Fjölnismenn tóku öll völd eftir fyrsta leikhluta og höfðu loks sigur. Christopher Smith var með 25 stig í liði Fjölnis en hjá Blikum var Jonathan Schmidt með 29 stig.
Með fall í 1. deild að veði hófu Blikar leikinn með látum og Aðalsteinn Pálsson kom heimamönnum í 12-4 með þriggja stiga körfu. Þá var Jonathan Schmidt grimmur í árásum sínum á teig Fjölnismanna og leiddu Blikar 25-16 eftir fyrsta leikhluta og stemmningin þeirra megin.
Gestirnir úr Grafarvogi þéttu vörn sína í öðrum leikhluta og tókst þeim að jafna en það gerði Christopher Smith af vítalínunni og staðan 29-29. Fjölnismenn voru komnir á bragðið og allt flæði hætti í sóknarleik Blika, Schmidt fór að hanga of mikið á boltanum og varnarleikur heimamanna gaf töluvert eftir.
Fjölnismenn stokkuðu svo upp í leik sínum og mættu með svæðisvörn og það lagðist illa í Blika, hittu lítið gegn henni og máttu sín lítils gegn þéttum teig Fjölnis. Ingvaldur Magni Hafsteinsson bauð svo upp á tilþrif leiksins er hann keyrði upp endalínuna, fór undir körfuna og tróð öfugu megin. Glæsileg tilþrif en Jonathan Schmidt náði að klóra í bakkann fyrir Blika fyrir hálfleik með þriggja stiga körfu þegar 10 sekúndur voru eftir og staðan 35-42 í leikhléi.
Schmidt var með 14 stig í liði Blika í hálfleik en Smith 12 stig í liði Fjölnis.
Í þriðja leikhluta kom Breiðablik muninum niður í 7 stig, 45-52 en nær komust þeir ekki. Fjölnir jók forskotið aftur jafnt og þétt og eftir flott samspil Ægis Þórs og Tómas Heiðars í hraðaupphlaupi komst Fjölnir í 47-59 en þá tóku Blikar leikhlé og 2.15 mín. eftir af þriðja leikhluta.
Fjölnismenn voru komnir í nokkur villuvandræði í síðari hálfleik en það virtist ekki há þeim heldur rúllaði Bárður vel á liðinu sem leiddi síðan 52-67 fyrir fjórða leikhluta eftir lokakörfu frá Sindra Kárasyni.
Garðar Sveinbjörnsson var baráttuglaður í Fjölnisliðinu í kvöld og var fremsti maður þeirra með vænghafið sitt í svæðisvörninni. Á sóknarendanum var Tómas Tómasson skæður í liði gestanna en hann jók einmitt muninn í 61-77 með góðu gegnumbroti.
Blikar hófu svo lokaatlöguna sína að tilverurétti sínum í deildinni þegar um fjórar mínútur voru til leiksloka. Heimamenn reyndu að hleypa leiknum upp en völdu erfið skot og hittu illa í kringum körfuna gegn þéttri vörn Fjölnis.
Níels Dungal rak svo smiðshöggið þegar hann skoraði og fékk villu að auki, Níels setti niður vítið fyrir Fjölni og staðan 71-88 þegar rétt rúmar tvær mínútur voru eftir af leiknum. Síðustu tvær mínúturnar voru svo leikur kattarins að músinni og lokatölur 81-93.
Breiðablik mun því leika í 1. deild á næstu leiktíð ásamt FSu en Fjölnismenn hafa tryggt sér sæti í Iceland Express deildinni og það skýrist í næstu umferð hvort Grafarvogspiltar komist í úrslitakeppnina eða sitji eftir.
Christopher Smith var með 25 stig og 7 fráköst hjá Fjölni en næstir honum komu þeir Ingvaldur Magni og Tómas Heiðar báðir með 17 stig. Tómas var sérlega skeinuhættur í síðari hálfleik og þá var leikstjórnandinn Ægir Þór að skila sínu með 10 stig, 12 stoðsendingar og 8 fráköst og því í verulegu daðri við þrennuna.
Jonathan Schmidt var stigahæstur hjá Breiðablik með 29 stig, 8 stoðsendingar og 6 fráköst. Jeremy Caldwell gerði 14 stig og tók 12 fráköst og Aðalsteinn Pálsson skilaði af sér 10 stigum. Blikar voru duglegir að skjóta fyrir utan og tóku 28 þriggja stiga skot í kvöld en aðeins sex þeirra rötuðu rétta leið. Þetta leit vel út hjá þeim í byrjun en svo vildu skotin ekki niður í síðari hálfleik.
Dómarar leiksins: Sigmundur Már Herbertsson og Jóhann Gunnar Guðmundsson.



