09:46
{mosimage}
ÍR tók á móti Fjölni í Iceland Express deild karla í seljaskóla í gærkvöld. Bæði liðin eru á svipuðu róli í neðri hluta deildar og því mátti búast við jöfnum og spennandi leik. Fjölnir hafði nokkuð forskot á ÍR mest allan leikin fyrir utan nokkrar mínútur í fyrsta leikhluta og seinustu mínútur leiksinns en ÍR-ingar fengu tvö tækifæri á að jafna leikinn á seinustu sekúndum leiksinns en skotin geiguðu bæði og því tveggja stiga sigur Fjölnis staðreynd, 83-85. Stigahæstir hjá Fjölni voru Karlton Mims með 23 stig, Níels Dungal með 18 stig og Kristinn Jónasson með 15 stig og 9 fráköst. Hjá ÍR var Hreggviður Magnússon yfirburða maður og skoraði 29 stig ásamt því að taka 9 fráköst, en næstur var Ray Cunningham með 13 stig á aðeins 13 mínútum en hann átti annars afleitan leik og var sendur snemma í bað með 5 villur um miðjan fjórða leikhluta.
Heimamenn í Seljaskóla byrjuðu leikinn á nokkuð sannfærandi hátt með Ray Cunningham í broddi fylkingar sem skoraði 7 af fyrstu 10 stigum ÍR-inga, fjölnismenn voru þó aldrei langt undan. Þegar það voru liðnar sjö mínútur af leiknum og Ír-ingar haft um það bil 3-4 stiga forskot fram að því tókst Fjölni að komast yfir í fyrsta skiptið í leiknum, 19-20. Þar var Kristinn Jónasson að verki en hann spilaði virkilega vel í leiknum og er greinilega að farinn að finna taktinn með Fjölni. Fjölnismenn héldu forskotinu út leikhlutan og bættu um betur en þeir höfðu 4 stiga forskot eftir leikhlutan, 24-27.
Það vakti athygli að eigingjarnasti leikmaður deildarinnar, samkvæmt visi.is , og jafnframt stigahæsti leikmaður Fjölnis spilaði ekki eina mínútu í fyrsta leikhluta en kom inná í þeim öðrum og skoraði ekki sitt fyrsta stig fyrr en 6 sekúndur lifðu af leikhlutanum. Honum tókst þó ekki að gefa sína fyrstu stoðsendingu á leiktíðinni.
Í öðrum leikhluta héldu Fjölnismenn áfram að auka muninn sem náði mest 10 stigum í stöðunni 27-37 þegar Níels Dungal skoraði glæsilega þriggja stiga körfu eftir 4 mínútur af leikhlutanum. Við það tók Jón Arnar Ingvarsson þjálfari ÍR leikhlé enda hans lið búin að fá á sig 17 stig gegn 8 á 7 mínútna kafla. Við það róaðist leikurinn aðeins en ÍR-ingum tókst þó aðeins að skora 14 stig í öðrum leikhluta og Fjölnir hélt því forskotinu nokkuð örugglega. Þeir höfðu svo 9 stiga forskot í hálfleik 37-46. Það var sterk vörn fjölnismanna sem færði þeim þetta forskot en einnig var gaman að sjá hvernig ungir leikmenn Fjölnis, Árni Jónsson og Tryggvi Pálsson, tóku af skarið og voru óhræddir við þá stóru skó sem brotthvarf Nemanja Sovic skildi eftir í sóknarleik liðsinns.
Þriðji leikhluti var nokkuð jafn og héldu Fjölnismenn því 10-12 stiga forskoti allan leikhlutan. ÍR hefði átt að gera mun betur í leikhutanum en þeir misnotuðu mörg skot sem kollegar þeirra í Fjölni voru að setja ofaní. Það leit þó illa út á tímabili hjá Fjölni þegar þrír byrjunarliðsmenn, Árni Jónsson og Tryggvi Pálsson fengu sína fjórðu villu á stuttum kafla og Kristinn Jónsson var ekki langt á eftir þeim. Staðan að leikhluta loknum var 60-72 og allt leit út fyrir að Fjölnir færi með nokkuð öruggan sigur af hólmi.
Svo virðist sem að Ír-ingar hafi þurft einhverja auka hvatningu til að koma sér í gang í leiknum því þeir biðu fram á allra seinustu stundu til að heyja virkilega baráttu um stigin 2 sem í boði voru. Þegar rúmlega fjórar mínútur voru búnar af leikhlutanum var staðan 69-82 Fjölni í vil tók Jón Arnar leikhlé og sagði eitthvað sem greinilega virkaði.
ÍR skipti yfir í pressuvörn yfir allan völlinn og svæðisvörn sem tók Fjölnismenn algjörlega út af laginu, þeir skoruðu ekki stig utan af velli það sem eftir var leiks og voru hreinlega heppnir að tapa ekki leiknum fyrir vikið. Ír-ingar söxuðu niður forskot Fjölnismanna smám saman og átti Hreggviður Magnússon stóran þátt í því bæði með virkilega góðum varnarleik og hnitmiðuðum skotum en hann skoraði tvær þriggja stiga körfur í röð og minnkaði muninn niður í 3 stig þegar aðeins rúm mínúta var eftir af leiknum,81-84.
{mosimage}
Allt í einu var leikurinn galopinn og allt gat gerst. Karlton Mims var sá eini sem sýndi líf í sóknarleik Fjölnis en hann fór á vítalínúna þegar 1 mínúta var eftir, skoraði úr öðru vítínu og munurinn því orðinn 4 stig. Hreggviður fór svo á vítalínuna hinu megin og skoraði úr báðum sínum vítum, 83-85. Ír-ingar vinna svo boltan þegar Karlton Mims hendi boltanum útaf í neyðartilraun til að losna undan pressuvörninni. Ír-ingar bruna því upp völlinn og Hreggviður tekur þriggjastiga skot sem klikkar, hinu megin fær Drago Pavlovic boltan og hann lætur vaða af færi sem klikkar en Kristinn Jónsson nær frákastinu.
Honum tókst þó að missa boltan og þegar 11 sekúndur voru eftir af leiknum voru Ír-ingar því aftur komnir með boltan og möguleika á að vinna leikinn. Þeir taka því leikhlé sem þar sem greinilega var lagt upp með að Hreggviður fengi pláss til að keyra á Drago, það gekk þó ekki betur en svo að skotið geigaði, Ómar Sævarsson fær frákastið og nær skoti á lokasekúndunni sem geigar einnig og griðarleg fagnaðarlæti brutust út meðal Fjölnismanna. Þeir geta því varla talist annað en heppnir eftir þessar lokamínútur að fá stigin 2 út úr þessum leik og standa liðin eftir umferðina því jöfn að stigum í 9. og 10. sæti með 4 stig.
Texti: Gísli Ólafsson
Myndir: Stefán Þór Borgþórsson – [email protected]



