Fjölnismenn hafa lagt fram kæru vegna viðureignar sinnar gegn Tindastól í Domino´s deild karla þann 8. febrúar síðastliðinn. Þetta staðfesti Hjalti Þór Vilhjálmsson þjálfari Fjölnis í samtali við Karfan.is.
Tindastóll vann leikinn með sigurkörfu frá Hreini Gunnari Birgissyni og voru þá 0,4 sekúndur eftir á leikklukkunni fyrir Fjölni til að jafna eða stela sigrinum. Fjölnismenn og þá Hjalti segir Tindastól hafa náð varnarfrákastinu þegar um 29 sekúndur voru til leiksloka og þá haldið í sókn en skotklukkan hafi ekki verið gangsett sem er 24 sekúndur.
,,Ég kvartaði undan þessu við ritaraborðið á meðan leik stóð og tók strax eftir þessu ósamræmi. Maður vonast auðvitað til þess að eitthvað komi út úr kærunni en við erum að kæra til að sýna fram á að þetta sé ekki sanngjarnt. Hvort þetta sé óviljaverk eða ekki af hálfu ritaraborðsins þá á þetta ekki að líðast enda er þetta svo mikilvægt, svo dýrmætt! Sérstaklega í lok leikja og á milli svona liða sem eru að berjast á sama stað,” sagði Hjalti og finnst honum einkennilegt hvernig hlutirnir æxluðust á loksprettinum í leiknum.
,,Skotklukkan glymur og eina sem þarf að gera er að endurstilla hana og ég ætla mér ekki að fullyrða hvort þetta hafi verið gert með ásetningi eða ekki en mér finnst það þó einkennilegt hvernig hlutirnir æxluðust,” sagði Hjalti og biður ekki um að Fjölni sé dæmdur sigur.
,,Við krefjumst þess að fá að spila leikinn aftur, við erum alls ekki að fara fram á að okkur verði dæmdur sigur, það er ósanngjarnt en að spila aftur er sanngjörn niðurstaða.”



