23:32
{mosimage}
(Flake sækir að körfu Fjölnis)
Á ævintýralegan hátt tókst Borgnesingum að tapa unnum leik gegn Fjölni í undanúrslitum Bikarkeppni KKÍ og Lýsingar í kvöld. Það verða því Snæfell og Fjölnir sem leika til úrslita í lok febrúar. Segja má að mara hafi legið á liði Skallagríms í kvöld, sem reyndist fyrirmunað að landa sigri fyrir framan troðfullt hús. Lokatölur leiksins voru 83-85 Fjölnismönnum í vil. Þetta kemur fram á www.skallagrimur.org
1. leikhluti var jafn og spennandi og gaf tóninn fyrir lokaátökin. Pétur Már og Darrel Flake settu 2 þrista snemma í leiknum og komu Borgnesingumí 8-5. Pálmi Þór Sævarsson var greinilega mættur í húsið en hann hriti fjöldann allann af fráköstum og var með sannkölluð "dólgslæti". Anthony Dreja lagaði stöðuna fyrir gestina en hann átti svo sannarlega eftir að fara mikinn seinna í leiknum. Staðan eftir 1. leikhluta var 16-19 fyrir gestina sem voru greinilega ekki komnir til þess að láta taka sig í bakaríið.
2. leikhluti var þónokkuð betri að hálfu heimamanna. Þeir Milojica Zekovic og Darrel Flake drógu vagninn sóknarlega en Pálmi sá um að moka skítinn heima í vörninni. Pétur og Hafþór voru einnig líflegir. Allan Fall var að mata liðsfélaga sína á lunknum sendingum, sem sumar voru einfaldlega of lunknar og enduðu þ.a.l. útaf. Shawn Knitter, sem var að spila sinn annan leik fyrir Fjölnismenn sýndi oft og tíðum lipra takta í sóknarleiknum í 2.leikhluta og reyndist varnarmönnum Skallagríms erfiður. Fyrri hálfleikur hefði þó vart getað endað betur fyrir heimamenn, en Allan Fall setti niður þriggjastiga skot frá miðjum vellinum þegar flautan gall, 41-32 í hálfleik.
Anthony Dreja setti fyrstu stiginn í seinni hálfleik, og átti hann eftir að sjóða sér 3. leikhlutann í potti og éta hann með tómatsósu og hráum lauk. Slíkir voru yfirburðirnir hjá pilti. Þökk sé tilviljunarkenndum þriggjastiga skotum sem fóru ofan í hjá heimamönnum þá misttu þeir Fjölnismenn ekki á undan sér, reyndar komust heimamenn mest 13 stigum yfir í 3.leikhluta, en ekki verður hægt að segja að sóknarleikurinn hafi verið mjög burðugur, þeir voru að taka erfið skot sem fóru ofan í. En Anthony Dreja héldu engin bönd. Maðurinn gjörsamlega pakkaði leikmönnum Skallagríms saman, og þegar þeir náðu að vera þrír á honum þá losaði hann sig við boltann á undraverðan hátt og kom þá þristur beint í smettið á heimamönnum. Hann skoraði 18 stig í leikhlutanum, m.a. flautukörfu og var staðan að leikhlutanum loknum 69-60 fyrir heimamenn.
Það er erfitt að segja hvað gerðist í 4. leikhluta, heimamenn voru með yfirhöndina nær allan leikhluta en létu spennuna ná til sín í lokin. Allan Fall átti ágætis spretti snemma í leikhlutanum og Darrel Flake kom Skallagrím í 76-65 á vítalínunni. En Níels Dungal og Kristinn Jónasson skiptu þá 7 stigum bróðurlega á milil sín, 5 mínútur eftir og staðan 76-72. Var stíflan virkilega að bresta? Kristinn Jónasson komst þá aftur á vítalínuna og setti niður tvö skot, Allan Fall fór með boltann upp en Anthony "Lebron" Dreja stal þá knettinum og jafnaði leikinn! Ótrúleg endurkoma Grafarvogspilta sem létu ekki 400 eldheita og illa lyktandi sveitamenn segja sér til syndanna (þetta er mjög ýkt staðhæfing, og í raun engin staðhæfing, aðeins lygi).
Í stöðunni 78-78 varði Pálmi Sævarsson skot gestanna og skoraði 2 stig í kjölfarið. Borgnesingar héldu svo væntanlega að björninn væri unninn þegar Darrel Flake stal knettinum í næstu sókn, skoraði og fékk víti að auki, 82-78. En Flake misnotaði vítið. Knitter skoraði 2 stig fyrir Fjölni í næstu sókn, Flake fór á línuna og skoraði bara úr einu víti. 2 víti forgörðum hjá þessum frábæra leikmanni. Hver á þá að stíga upp fyrir Fjölni annar en Anthony Dreja, sem dró að sér þrjá varnarmenn Skallagríms, sendi boltann á Kristinn Jónasson sem var galopinn, og hafði meira að segja tíma til þess að dútla sér út fyrir þriggjastiga línuna, og smella niður þremur stigum, 83-83. Borgnesingar taka leikhlé, Allan Fall misnotar skotið, og Shawn Knitter er sendur á vítalínuna þegar 6 sekúndur eru eftir. Honum brást ekki bogalistin og kláraði leikinn a línunni.
Borgnesingar fengu tækifæri til þess að jafna leikinn en Allan Fall missti boltann og leikurinn rann út í sandinn.
Hörmuleg örlög fyrir heimamenn, sem hefðu með sigri komist í bikarúrslit í fyrsta sinn í sögu félagsins og mætt þar nágrönnum sínum úr Stykkishólmi í leik sem hefði verið einn eftirminnilegasti bikarúrslitaleikur sögunnar. En taugarnar voru ekki meiri þegar á reyndi í kvöld og er eflaust hægt að skella skuldina á hina og þessa. En í bikarkeppni eiga "litlu liðin" alltaf möguleika og það sannaðist í kvöld, Fjölnismenn mættu með blóð á tönnunum og uppskáru eins og þeir sáðu. Til hamningju Fjölnir.
Florian Miftari sat á varamannabekk Skallagríms allan leikinn en hann kom til landsins í dag.
Anthony Drejaj gerði 30 stig og tók 18 fráköst fyrir Fjölni í kvöld en Darrell Flake gerði 30 stig og tók 14 fráköst fyrir Skallagrím.
Tölfræði leiksins
Myndir: Svanur Steinarsson
{mosimage}



