spot_img
HomeFréttirFjölnismenn eru ekki lengur efnilegir!

Fjölnismenn eru ekki lengur efnilegir!

 
Þeir eru góðir! Án erlends leikmanns og með Ingvald Magna Hafsteinsson utan vallar allan síðari hálfleik sökum meiðsla tókst Fjölnismönnum samt að leggja ÍR 73-76 í fyrstu umferð Lengjubikarsins. Að sama skapi var Sveinbjörn Claessen ekki með ÍR í kvöld og munar þar um minna. Fjölnir mætir því Íslands- og bikarmeisturum Snæfells í næstu umferð. Sindri Kárason var stigahæstur Fjölnismanna með 17 stig og 6 fráköst en í liði ÍR var Kelly Biedler stigahæstur með 23 stig, 15 fráköst og 5 stoðsendingar.
ÍR komst í 7-0 áður en Fjölnismenn rönkuðu við sér og tóku völdin og leiddu 16-20 að loknum fyrsta leikhluta. Magni Hafsteinsson kenndi sér eymsla í öðrum leikhluta og kom ekki meira við sögu í leiknum en Fjölnismenn létu það ekki á sig fá og juku muninn í 31-46 og þannig stóðu leikar í hálfleik.
 
ÍR beit frá sér í síðari hálfleik og minnkaði muninn í átta stig fyrir fjórða og síðasta leikhluta 56-64. Í fjórða leikhluta nálguðust ÍR-ingar jafnt og þétt og endaspretturinn varð æsispennandi. Þegar 14 sekúndur voru til leiksloka leiddi Fjölnir 73-76 eftir víti frá fyrirliða sínum Ægi Þór Steinarssyni. ÍR-ingar héldu í sókn, þriggja stiga skot Nemanja Sovic geigaði, boltinn barst til Ásgeirs Hlöðverssonar sem tók lokaskotið en það geigaði líka. Ásgeir vildi meina að brotið hefði verið á sér í skotinu en dómarar leiksins þeir Kristinn Óskarsson og Eggert Þór Aðalsteinsson voru á öðru máli og sigur Fjölnis í höfn.
 
IR: Kelly Biedler 23/15 fráköst/5 stoðsendingar, Nemanja Sovic 22/12 fráköst, Vilhjálmur Steinarsson 10, Hjalti Friðriksson 7/4 fráköst, Elvar Guðmundsson 3, Eiríkur Önundarson 3, Níels Dungal 3, Ásgeir Örn Hlöðversson 2/6 fráköst, Björgvin Jónsson 0, Davíð Þór Fritzson 0, Þorvaldur Hauksson 0, Þorgrímur Emilsson 0.
 
Fjölnir: Sindri Kárason 17/6 fráköst/3 varin skot, Tómas Heiðar Tómasson 16, Ægir Þór Steinarsson 15/7 fráköst/10 stoðsendingar, Jón Sverrisson 14/6 fráköst, Ingvaldur Magni Hafsteinsson 7, Hjalti Vilhjálmsson 5/4 fráköst, Elvar Sigurðsson 2, Trausti Eiríksson 0, Arnþór Freyr Guðmundsson 0/5 fráköst, Friðrik Karlsson 0, Leifur Arason 0, Sigurður Þórarinsson 0.
Dómarar: Kristinn Óskarsson, Eggert Þór Aðalsteinsson
 
Ljósmynd/ Jón Björn Ólafsson: Ægir Þór Steinarsson átti góðan dag með Fjölni en hann setti 15 stig, tók 7 fráköst og gaf 10 stoðsendingar.
 
Fréttir
- Auglýsing -