spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaFjölniskonur með góðan sigur í Keflavík

Fjölniskonur með góðan sigur í Keflavík

Fjölnir jafnaði b-lið Keflavíkur að stigum í 1. deild kvenna með góðum sigri suður með sjó í dag. Gestirnir höfðu frumkvæðið allan leikinn, spiluðu agaðan og óeigingjarnan leik sem skilaði að lokum 6 stiga sigri 71-77. Bæði liðin eru nú í fjögurra liða pakka ásamt Njarðvík og ÍR með 10 stig í deildinni í sætum 2-5.

Gangur leiksins
Jafnræði var með liðunum fyrstu 14-15 mínúturnar en Fjölnir seig fram úr á síðustu mínútum fyrri hálfleiks og leiddi með 9 stigum þegar liðin héldu til búningsherbegja eftir 20 spilaðar mínútur. Fjölnir var að leita mikið inn í teiginn þar sem hávaxnir leikmenn þeirra ollu heimakonum miklum vandræðum en auk þess voru gestirnir að velja sér skotin af kostgæfni sem skilaði þeim þessum mun fyrir hálfleik.


Keflvíkingum tókst illa að trekkja sig í gang í síðari hálfleik og það var ekki fyrr en munurinn var kominn yfir 15 stigin sem þær stigu loks á bensínið og fóru að sína á sér betri hliðarnar sem oft hafa glatt körfuboltaaugað í vetur. Það reyndist þó of lítið og of seint, þótt þær hafi komist í ágætis möguleika á síðustu mínútum leiksins, því gestirnir sigldu sigrinum verðskuldað heim að lokum.

Af hverju vann Fjölnir?
Stemmningin var með gestunum sem spiluðu inn á styrkleika sína í dag. 44 stig nokkuð auðveld skoruð úr teignum á móti 24 hjá Keflavík. Boltanum var stöðugt dælt inn í teig Keflvíkinga þar sem boltinn stoppaði yfirleitt stutt við ef ekki var ráðist á körfuna. Góðar sendingar, hlaup af boltanum eða á veiku hliðinni til að opna völlinn. Farið var á eftir öllum sóknarfráköstum og lausum boltum. Gestirnir framkvæmdu þessa hluti sem liðsheild og uppskáru eftir því.


Of margar sóknir Keflavíkur enduðu með slæmu skotvali á fyrsta tempói. Þær gerðu Fjölniskonum mjög auðvelt fyrir varnarlega þar sem þær þurftu ekki að eyða mikilli orku í dag.

Bestar á vellinum
Eygló Kristín Óskarsdóttir. Keflvíkingar réðu ekki við hana. 19 stig, 7 fráköst og 2 stoðsendingar. Fór mikið í gegnum hana sem opnaði fyrir aðra leikmenn Fjölnis.

Fanney Ragnarsdóttir. 16 stig, 12 fráköst og 10 fiskaðar villur. Áræðin og dugleg allan tímann. Flottur leikur hjá henni, skynsamar ákvarðanir í sókninni og liðið stólaði á hana þegar áhlaup Keflavíkur stóð sem hæst.

Anna Ingunn Svansdóttir. Stigahæst í liði Keflavíkur með 24 stig. Skotvalið ekki til útflutnings oft á tíðum og hefði mátt fara oftar á körfuna þar sem Fjölnir réði illa við hana af dripplinu.

Eva María Davíðsdóttir átti spretti með 15 stig.

Tölfræði leiks

Umfjöllun / Sigurður Friðrik Gunnarsson

Fréttir
- Auglýsing -