Fjölnir lagði Val í kvöld heima í Dalhúsum í Subway deild kvenna, 99-70. Eftir leikinn er Fjölnir í 1.-2. sæti deildarinnar með 18 stig líkt og Njarðvík á meðan að Valur er í 3. sætinu með 14 stig.
Gangur leiks
Heimakonur í Fjölni ná að vera skrefinu á undan í fyrsta leikhluta. Íslandsmeistararnir ná þó nánast að jafna leikinn áður en fjórðungurinn er á enda, 20-19. Í öðrum leikhlutanum nær Fjölnir aftur að keyra framúr gestunum og eru 11 stigum yfir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 44-33.
Atkvæðamest heimakvenna í fyrri hálfleiknum var Aliyah Daija Mazyck með 14 stig, 6 fráköst og fyrir Val var Ásta Júlía Grímsdóttir best með 12 stig og 10 fráköst.
Segja má að heimakonur í Fjölni hafi gert útum leikinn í upphafi seinni hálfleiksins. Vinna þriðja leikhlutann með 14 stigum og eru því með 25 stiga forskot fyrir lokaleikhlutann, 74-49. Í fjórða leikhlutanum gera Fjölniskonur svo nóg til þess að sigra að lokum með 27 stigum, 99-70.
Kjarninn
Fjölniskonur hafa heldur betur verið á siglingu síðustu vikur. Nú unnið fimm leiki í röð í deildinni og eru jafnar Njarðvík að stigum í efsta sætinu, þó búnar með einum leik fleiri en Njarðvík. Fer ekkert á milli mála hversu hæfileikaríkt liðið er sóknarlega, en í kvöld sýndu þær áhorfendum virkilega flottan varnarleik, þar sem þær halda Íslandsmeisturunum um eða vel undir 20 stigum alla fjóra leikhlutana.
Íslandsmeistarar Vals hafa einnig verið á nokkurri siglingu síðustu vikur, unnið 7 af 10 leikjum deildarinnar fyrir leik kvöldsins og hefðu með sigri getað jafnað Fjölni að stigum. Óeðlilega mikill munur á liðunum í kvöld, en það munaði kannski mestu fyrir Val að lykilmenn þeirra Hallveig Jónsdóttir, Guðbjörg Sverrisdóttir og Ameryst Alston áttu allar alveg agalegan dag.
Tölfræðin lýgur ekki
Skotnýting Vals var aðeins 28% í leiknum (24 af 85) á móti 48% skotnýtingu Fjölnis (39 af 81)
Atkvæðamestar
Aliyah var best í liði Fjölnis í dag með 19 stig, 14 fráköst og 9 stoðsendingar. Þá bætti Dagný Lísa Davíðsdóttir við 23 stigum og 7 fráköstum.
Fyrir Val var Ásta Júlía Grímsdóttir atkvæðamest með 18 stig, 14 fráköst og Sara Líf Boama bætti við 5 stigum og 14 fráköstum.
Hvað svo?
Bæði lið eiga leik næst komandi miðvikudag 5. janúar. Fjölnir tekur á móti Breiðablik í Dalhúsum og Valur heimsækir Grindavík í HS Orku Höllina.
Myndasafn (Hafliði Breiðfjörð)