spot_img
HomeFréttirFjölnir við stýrið eftir stórkostlegan leik

Fjölnir við stýrið eftir stórkostlegan leik

Fjölnismenn hafa sest við stýrið í úrslitarimmunni gegn Skallagrím eftir 102-101 sigur í þriðja leik liðanna í 1. deild karla. Staðan 2-1 Fjölni í vil. Collin Pryor gerði sigurstig Fjölnis þegar fimm sekúndur lifðu leiks, gestirnir úr Borgarnesi fengu lokaskotið sem kom frá Sigtryggi Arnari en það vildi ekki niður og Fjölnir hafði sigur í hreint út sagt frábærum leik.

Liðin skiptust 18 sinnum á forystunni í leiknum og undir lok þriðja og í byrjun fjórða þegar Fjölnir virtist ætla að slíta sig frá barði Skallagrímur sér leið upp að hlið þeirra á nýjan leik. Leikurinn var hraður og bráðfjörugur, 18 sinnum skiptust liðin á forystunni og lengsta „rönn“ liðanna taldi ekki nema átta stig! 

Litlu hlutirnir verða oft risavaxnir á svona kvöldum og það má segja að Jean Rony Cadet hafi fengið súrasta hlutskipti kvöldsins en hann misnotaði tvö vítaskot sem hefðu getað komið Skallagrím í 100-103 en í staðinn tók Fjölnir varnarfrákastið, fór í sókn þar sem Pryor gerði lokastigin. Leikur kvöldsins hafði upp á allt að bjóða sem vænta má af góðum úrslitaslag með rafmagnaðan leik og rafmagnaða áhorfendur og spennu allt fram að lokaskotinu. 

Þrír svaklegir leikir að baki á millum liðanna sem mætast næst í Fjósinu í fjórða leiknum þar sem Fjölnir getur komið sér í Domino´s-deildina með sigri eða Skallagrímur knúið fram oddaleik með sigri. 

Fyrsti leikhluti fór fjörlega af stað, mikill hraði á báðum liðum og tempóið ansi hátt. Garðar Sveinbjörnsson var mættur aftur í fjörið með Fjölni en hann hvíldi síðasta leik sökum veikinda. Heimamenn komust í 8-7 þar sem Bergþór Ægir Ríkharðsson fór vel af stað en gestirnir tóku svo við með Kristófer Gíslason í broddi fylkingar en hann gerði 7 stig og tók 4 fráköst í fyrsta leikhluta. Skallagrímur leiddi 20-23 að honum loknum þar sem Kristófer var stigahæstur gestanna en Pryor og Bergþór báðir með 6 stig í liði gestanna. 

 

Þó lítið bæri í milli hjá liðunum á stigatöflunni voru Borgnesingar engu að síður vel staddir í frákastabaráttunni með 8-16 á fyrstu 12 mínútum leiksins. Sú staða í tölfræðinni breytti engu um að við vorum áfram með leik á miklum hraða og liðin skiptust á forystunni.

Hreiðar Bjarki Harðarson jafnaði fyrir Fjölni 26-26 og svona gekk þetta, Cadet kom gestunum í 31-33 með körfu og villu að auki en Róbert Sigurðsson svaraði því með þrist 34-33. 

Mikið skorað þennan fyrri hálfleik og leiddu heimamenn 47-46 í hálfleik þar sem glæsileg sóknarflétta Fjölnis fékk enda í þrist hjá Bergþóri Ægi en hann og Pryor voru báðir með 12 stig í liði Fjölnis í hálfleik. Hjá Skallagrím var Cadet með 15 stig og 8 fráköst og Hamid Dicko kom með fínar rispur inn í annan leikhlutann með 8 stig í háflleik. 

 

Skotnýting liðanna í hálfleik

Fjölnir: Tveggja 58% – þriggja 63% og víti 100%  (4-4)

Skallagrímur: Tveggja 54% – þriggja 29% og víti 80% (4-5)

 

Í þriðja leikhluta snögghitnaði Róbert Sigurðsson og skellti í tvo þrista sem komu Fjölni í 55-49 en Sigtryggur Arnar blandaði sér í skotbaráttuna fyrir Skallagrím og með tveimur þristum tókst honum að jafna 63-63. Svona gekk þetta fram og til baka. Þó allir hafi verið ánægðir með fjörið er hægt að slá því föstu að þjálfarar liðanna hafi viljað sjá þéttari varnarleik því þriðji leikhluti fór 35-26 fyrir Fjölni! 

Garðar Sveinbjörnsson tók góða rispu undir lok þriðja en hans naut ekki við í síðasta leik vegna veikinda en Garðar gerði alls 16 stig í liði Fjölnis í kvöld. Fjölnir leiddi 82-72 á leið inn í fjórða leikhluta og þegar hér var komið við sögu var þetta einn mesti munurinn í leiknum en Fjölnir náði mest 12 stiga forystu. 

Fjórði leikhluti var bara sturlaður, Sigtryggur tók Borgnesinga á bakið og minnkaði muninn í 88-85 þegar hann nældi sér í sóknarfrákast og skoraði svo gegn Pryor í teignum. Hreiðar Bjarki Vilhjálmsson tók svo fimm stiga rispu fyrir Fjölni og kom þeim í 93-87. 

Davíð Ásgeirsson splæsti í tvo rándýra þrista fyrir Skallagrím og sá síðari jafnaði metin 98-98 þegar 1.40 mín. voru til leiksloka. Annar Davíð, og nú Guðmundsson kom Skallagrím í 98-101 með þriggja stiga körfu og það var ekki fyrr en 21 sekúnda var eftir af leiknum að skorað var aftur. Cadet braut þá á Pryor sem setti bæði af línunni 100-101. 

Skallagrímur hélt í sókn og fengu tvö vítaskot þegar 16 sekúndur voru til leiksloka. Cadet misnotaði bæði vítin eins og áður hefur komið fram og Fjölnismenn brunuðu í sókn en boltinn barst af velli þegar 8,8 sekúndur voru eftir. Dómarar leiksins ákváðu að skoða myndbandsupptöku af atvikinu til þess að dæma réttu liði boltann og úr varð að Fjölnir átti innkastið. Pryor endaði með boltann í höndunum úti við endalínu, vippaði sér upp í stökkskotið yfir Cadet og það rataði heim! Staðan 102-101 fyrir Fjölni og 5 sekúndur eftir. Borgnesingar héldu í leikhlé, mættu svo úti við þriggjastiga línu Fjölnismanna þar sem Sigtryggur Arnar fékk boltann. Hann komst í fínt skotfæri en boltinn vildi ekki niður og leikurinn úti! 

Svipaðir hlutir voru í gangi í kvöld og í fyrstu tveimur leikjunum, hraði, spenna, liðin að skipta svolítið á milli maður á mann varnar og svæðisvarnar en þessi leikur var mun opnari sóknarlega og á tíma voru heimamenn 10-16 í þristum sem segir nokkuð um fjörið á liðunum í kvöld. 

Bestu menn Fjölnis: Collin Pryor, Róbert Sigurðsson, Garðar Sveinbjörnsson

Bestu menn Skallagríms: Sigtryggur Arnar Björnsson, Jean Rony Cadet, Davíð Guðmundsson 

 

Fjórði leikur liðanna fer fram 23. apríl í Fjósinu í Borgarnesi. 

Tölfræði leiksins

Myndasafn – Bára Dröfn

Umfjöllun – Jón Björn 

 

Fréttir
- Auglýsing -