spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild kvennaFjölnir vann Blika með minnsta mun

Fjölnir vann Blika með minnsta mun

Breiðablik tók á móti Fjölni í Subway deild kvenna í kvöld. Fyrir leik kvöldsins voru heimakonur í næstneðsta sæti deildarinnar með 3 sigra og 14 töp, en gestirnir sátu í sætinu fyrir ofan með fjóra sigra og 13 töp.

Gestirnir úr Grafarvogi byrjuðu betur og höfðu átta stiga forskot eftir fyrsta fjórðung, 11-19. Blikar minnkuðu muninn örlítið í öðrum leikhluta, en Fjölniskonur höfðu þó sex stiga forskot í hálfleik, 27-33.

Kópavogskonur voru sterkari í þriðja leikhluta, og höfðu tveggja stiga forskot fyrir lokafjórðunginn, 51-49. Það voru hins vegar gestirnir sem virtust ætla að fara með öruggan sigur af hólmi, en Fjölnir náði níu stiga forskoti, 64-73, þegar rúm mínúta lifði af leiknum. Breiðablik kláraði leikinn á 8-0 áhlaupi, en það dugði ekki og fór Fjölnir með eins stigs sigur af hólmi, 72-73.

Stigahæst Blika í kvöld var Sanja Orozovic með 26 stig, en hjá gestunum var Brittany Dinkins stigahæst í sínum fyrsta leik með 21 stig.

Næsti leikur Fjölnis er 1. febrúar næstkomandi á heimavelli gegn Haukum, en sama kvöld mæta Blikar Njarðvíkingum á útivelli.

Fréttir
- Auglýsing -