Fjölnir lagði Njarðvík í kvöld í Dalhúsum í fyrsta leik undanúrslitaeinvígis liðanna, 69-62. Fjölnir því komnar með 1-0 forystu í viðureigninni, en vinna þarf þrjá leiki til að tryggja sér farseðil í úrslitin. Næsti leikur liðanna er komandi fimmtudag 7. apríl í Ljónagryfjunni í Njarðvík.
Fyrir leik
Lið höfðu í fjögur skipti mæst áður í deildinni í vetur. Njarðvík hafði sigur í fyrstu þremur leikjunum. Þann síðasta vann Fjölnir í Dalhúsum 2. mars með fjórum stigum, 80-76.
Gangur leiks
Gestirnir úr Njarðvík byrja leik kvöldsins mun betur og komast 2-12 yfir á upphafsmínútunum. Heimakonur eru þó fljótar að átta sig, eru búnar að jafna og komast svo yfir þegar rúmar 2 mínútur eru eftir af fyrsta leikhluta, 18-15. Undir lok fjórðungsins nær Fjölnir svo að láta kné fylgja kviði og eru komnar 11 stigum á undan þegar leikhlutinn er á enda, 26-15. Áfrma heldur áhlaup Fjölnis í öðrum leikhlutanum, setja fyrstu átta stig leikhlutans og halda Njarðvík stigalausum fyrstu sex mínútur fjórðungsins. Miðað við hvernig leikurinn hafði spilast mátti Njarðvík þakka fyrir það að vera aðeins 9 stigum undir þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik, 36-27.
Stigahæst Fjölniskvenna í fyrri hálfleiknum var Aliyaj Mazyck með 17 á meðan að Kamilla Sól Viktorsdóttir var komin með 12 stig fyrir Njarðvík.
Hægt og bítandi nær Njarðvík að vinna niður mun Fjölnis í upphafi seinni hálfleiksins. Munaði þar miklu um sóknarframlag atvinnumanna þeirra Diene og Lavinia. Minnst koma þær muninum niður í fjögur stig áður en Fjölnir setur fótinn aftur á bensíngjöfina, fær nokkra þrista frá Iva Bosnjak og er 10 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 53-43. Eitthvað var farið að bera á villuvandræðum hjá báðum liðum á þessum tímapunkti leiksins. Hjá Fjölni voru byrjunarliðsmenn þeirra Nikola, Iva og Dagný Lísa allar með þrjár, en hjá Njarðvík voru Diene og Kamilla einnig með þrjár villur. Í þeim fjórða nær Fjölnir svo að halda forystu sinni, eru 11 stigum yfir þegar 5 mínútur eru eftir 61-50. Njarðvík gerir ágætlega í að gera þetta spennandi á lokammínútunum, komast 4 stigum næst heimakonum, en niðurstaðan að lokum þó sigur Fjölnis, 69-62.
Nokkuð áhyggjuefni er fyrir Fjölni að þeirra besti leikmaður Aliyah Mazyck fékk sína aðra óíþróttamannslegu villu undir lok leiks og var því rekin út úr húsi. Þetta mun vera í annað skipti sem hún er rekin út í vetur og mun hún því að öllum líkindum fá sjálfkrafa bann í öðrum leik liðanna.
Atkvæðamestar
Fyrir Njarðvík var Aliyah Collier atkvæðamest með 14 stig og 23 fráköst. Þá bætti Diane Diene við 13 stigum og 8 fráköstum.
Fyrir Fjölni var það Aliyah Mazyck sem dró vagninn með 26 stigum, 14 fráköstum og 9 stoðsendingum. Henni næst var Dagný Lísa Davíðsdóttir með 16 stig og 10 fráköst.
Hvað svo?
Næsti leikur liðanna er þann 7. apríl í Ljónagryfjunni.
Undanúrslit Subway deildar kvenna