spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild kvennaFjölnir stal sigri í Kópavoginum

Fjölnir stal sigri í Kópavoginum


Breiðablik tók á móti Fjölni í Smáranum í kvöld, leikmenn beggja liða voru einbeittir í upphitun og virtist allt stefna í góðan leik. Frá fyrstu mínútu voru Blikar með yfirhöndina, þær voru að nýta sér plássið á vellinum vel einnig voru þær grimmar í vörninni. Fjölniskonur voru hins vegar lengi að finna taktinn í leiknum, þær áttu á tímum erfitt með það að koma boltanum ofan í körfuna ásamt því voru þær ekki einbeittar á að stíga út sem kom sér vel fyrir Blika. Breiðablikskonur voru ekki með bestu skotnýtinguna, en nýttu sér vel að ekki væri verið að stíga þær út og tóku ófá sóknarfráköst sem enduðu í netinu.


Mikið fór fyrir Jessica Kay á vellinum, hún var allt í öllu. Hún barðist fyrir fráköstum, pressaði leikstjórnanda Fjölnis um leið og hún fékk boltann í hendurnar, hún sýndi gæða varnarleik og ekki var sóknarleikur hennar síðri. Í fyrri hálfleik fór ekki mikið fyrir Fjölnisliðinu á vellinum, virtust þær vera taktlausar en spiluðu samt vel saman. Það var ekki fyrr en í seinni hálfleik að Ariana vaknaði til lífs og fór að sýna sínar bestu hliðar.


Fjölniskonur voru að eltast við Blika allan leikinn, náðu að jafna nokkrum sinnum en aldrei komust þær yfir fyrr en snemma í fjórða leikhluta. En það var einmitt þá sem að allt fór að gerast. Liðin voru að skiptast á forystu en eins og oft áður komust Blikar ávallt nokkrum stigum yfir en Fjölnir neitaði að gefast upp. Breiðablikskonur voru farnar að sætta sig við þriggja stiga skot um miðjan leikhlutann og varð það þeim að falli. Þær voru ekki að nýta skotin sín vel né fóru þær að sækja fráköstin eins og í fyrri hálfleik. Á sama tíma hinu megin á vellinum voru Fjölniskonur óhræddar að koma sér að körfunni og nýttu sér færin sín vel. Eftir leikhlé á 37. mínútu skipti Breiðablik yfir í 1 – 3 – 1 svæðisvörn, sem virkaði vel til þess að byrja með.

En á loka mínútu leiksins var misskilningur í vörninni sem varð til þess að Margrét Ósk fékk opið þriggja stiga skot sem hún nýtti til þess að koma Fjölni tveimur stigum yfir. Blikar skoruðu svo ekki í sinni sókn og gripu til örþrifaráða að brjóta til þess að stoppa klukkuna. Margrét setti seinna vítið og kom Fjölni þremur stigum yfir. Blikar áttu síðustu sókn með tíu sekúndur eftir af klukkunni sem endaði á erfiðari þriggja stiga tilraun.

Þáttaskil

Eftir að hafa misst Ariana og Heiðu Hlín af velli var ekkert annað í boði fyrir Fjölniskonur að stíga upp og treysta á hvor aðra til þess að klára leikinn. Þær tóku þeirri áskorun og sýndu sínar bestu hliðar til þess að klára leikinn.


Tölfræðin lýgur ekki

Skotnýting Fjölnis var betri en hjá Breiðablik, Fjölnir tók fleiri fráköst og gáfu fleiri stoðsendingar. Ekki er hægt að segja að það sé mikill munur milli liða í tölfræði, en Blikar þurfa að nýta skotin sín betur. Blikar þurftu einnig að keyra á körfuna í fjórða leikhlutanum í stað þess að sætta sig við þriggja stiga skotin.


Hetjan

Hetja Breiðabliks var Jessica Kay, hún var allt í öllu, barðist hart fyrir sínu liði. Hún spilaði frábæra vörn og var óeigingjörn í sókninni. Því miður dvínaði hennar sóknarleikur með hverri mínútu sem leið í seinni hálfleik aftur á móti gaf hún aldrei eftir í vörninni.


Hetja Fjölnis var engin önnur en Margrét Ósk sem setti niður rándýra þriggja stiga körfu á loka mínútu leiksins. Hún steig upp þegar að liðið þurfti á henni að halda og gerði það sem þurfti til þess að klára leikinn.

Kjarninn

Bæði lið hafa rými til þess að bæta leikinn sinn, spennandi verður að sjá þessi lið í deildinni í vetur svo mikið er víst. Fínpússun á sóknarleik beggja liða mun koma þeim langt, leikmenn leiksins sýndu sjálfstraust og góða takta, ekki þarf mikið meira til þess að landa sigrum í deildinni.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Umfjöllun, viðtöl / Regína Ösp

Myndir / Fjölnir FB

Fréttir
- Auglýsing -