spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaFjölnir sigursælar í fyrsta leik - Tindastóll kemur á óvart

Fjölnir sigursælar í fyrsta leik – Tindastóll kemur á óvart

Fyrir leik

Í gær hittust Fjölnir og Tindastóll í fyrsta leik liðanna í 1. deild kvenna tímabilið 2018-2019. Tindastól var seinast með kvennalið á tímabilinu 2014-2015 og því var lítið vitað um liðið sem það mætti með til keppni á þessu tímabili. Tólf leikmenn höfðu nýlega skrifað undir hjá liðinu ásamt þjálfara og ánægjulegt að öflugur körfuboltabær eins og Sauðárkrókur sé loks aftur með tvö meistaraflokkslið.

Fjölnir hefur að sama skapi styrkt sig mikið frá því á seinasta tímabili og m.a. bætt við sig Alexöndru “Lexi” Petersen, Söru Diljá Sigurðardóttur og Heiðrúnu Hörpu Ríkharðsdóttur.

Gangur leiksins

Fjölnisstúlkur virtust ekki vera undirbúnar fyrir Tindastól í fyrstu, enda töpuðu þær fjórum boltum á fyrstu 2 mínútum leiksins. Í stöðunni 3-12 eftir rúmar þrjár mínútur neyddist Halldór Karl Þórsson, þjálfari Fjölnis, til að brenna af leikhléi til að skerpa heimastúlkur. Það hefur dugað enda þurfti Arnoldas Kuncaitis, þjálfari Tindastóls, að taka sitt eigið leikhlé tæpri mínútu seinna í stöðunni 8-12. Tessondra Williams, bandarískur leikmaður Tindastóls, lenti fljótlega í villuvandræðum, var skipt út af og Grafarvogsliðið gekk þá á lagið. Við lok fyrsta leikhluta var staðan orðin 28-25, heimamönnum í vil.

Liðin voru mikið að skiptast á körfum í öðrum fjórðungnum en Tindastólsstelpurnar þurftu alltaf að vinna harðar fyrir sínum stigum á meðan að Fjölnir átti auðveldara með að skora. Í hálfleik var staðan orðin 53-47 fyrir Fjölni. Í seinni hálfleik fór dýpt bekkjarins hjá Fjölni að telja og Tindastóll fór að dragast aftur úr. Munurinn hélt áfram að aukast og svo fór að lokum að stelpurnar að norðan sprungu alveg á limminu. Lokastaðan varð því 106-75 fyrir Fjölni.

Lykillinn

Lexi Petersen var mjög mikilvæg fyrir Fjölnisstúlkur í gær og Tindastóll virtist eiga í mesta basli með að dekka hana, hvort sem það var í hraðaupphlaupum eða á hálfum velli. Lexi lauk leik með 35 stig, 12 fráköst og 8 stoðsendingar. Heildarframlag hennar var mjög gott, eða 45 framlagsstig. Hjá Tindastól voru þær Marín Lind Ágústsdóttir og Þóranna Ósk Sigurjónsdóttir nokkuð góðar en Marín var stigahæst með 22 stig og Þóranna framlagshæst með 17 framlagsstig. Tessondra Williams var sömuleiðis ágæt (20 stig/5 stoðsendingar) en spilaði ekki nema 23 mínútur vegna villuvandræða.

Kjarninn

Fjölnir hikstuðu aðeins í byrjun leiks á meðan að Tindastóll mættu reiðubúnar strax frá fyrstu mínútu. Gestirnir gátu hins vegar ekki haldið ákafanum til streitu og breidd heimaliðsins reyndist meira en að þær réðu við. Hraðaupphlaup eftir tapaða bolta og stig eftir sóknarfráköst var það sem skilaði Fjölnisstúlkum sigrinum í gær.

Samantektin

Tindastóll er augljóslega ágætt lið sem önnur fyrstu deildarlið verða að taka alvarlega þó að þeim hafi ekki tekist að vinna þennan leik. Fjölnir er með þrælöflugt lið sem er duglegt að refsa öðrum liðum þegar þau gera mistök og verða í toppbaráttunni í 1. deild kvenna í ár.

Viðtöl eftir leik:

Fréttir
- Auglýsing -