spot_img
HomeFréttirFjölnir sendi Tindastól heim með fyrsta tapið

Fjölnir sendi Tindastól heim með fyrsta tapið

Það er kalt á toppnum og þegar þú ert taplaus eftir 12 leiki í febrúar, þá leggja andstæðingarnir alltaf sífellt meira og meira í sölurnar til að vinna þig. Leikmenn Tindastóls þekkja þetta en þeir renndu við í Grafarvoginn í kvöld með það að markmiði að fara heim með 30+ stiga sigur í farangrinum yfir heiðina. Fjölnismenn höfðu hins vegar annað í huga.
 
Leikurinn var hnífjafn strax í upphafi og augljóst að heimamenn ætluðu að leggja allt í sölurnar fyrir þennan leik. Liðin skiptust ítrekað á forystunni og þess á milli var leikurinn jafn. Forystan hjá hvoru liði var aldrei meiri en 3 stig þar til í lok fyrri hálfleiks þegar Fjölnir gaf eilítið í og komust mest í sex stiga mun þar til gestirnir náðu að minnka muninn í fjögur eða 38-34 þegar flautan gall. 
 
Tindastóll náði aldrei að hrista af sér Fjölni í fyrri hálfleik. Töpuðu boltanum samtals 11 sinnum og gáfu eftir 10 sóknarfráköst á fyrstu 20 mínútunum. Bæði Proctor og Flake voru í villuvandræðum snemma í fyrri hálfleik og þurfti Bárður því að treysta mikið á minni spámenn.
 
Seinni hálfleikur hófst eins og sá fyrri en liðin skiptust á körfum allan þriðja hluta. Skotnýtingin var ekki mikil eða um 30-40% hjá báðum liðum. Fjölnismenn héldu áfram að rífa niður sóknarfráköstin frá Stólunum og náðu 7 slíkum í þriðja hluta einum og sér.
 
Fjölnismenn stigu á bensíngjöfina strax í byrjun fjórða hluta og settu 13 stig á móti 6 frá gestunum. Emil Þór Jóhannsson fór mikinn í þessum spretti heimamanna og setti 11 af þessum 13 stigum Fjölnis í röð á eftir Páli Fannari sem hóf leikhlutann með tveggja stiga sniðskoti. Munurinn jókst í 10 stig og munaði engu hann yrði 12 þegar Fjölnismenn misstu boltann eftir skref og Tindastóll tók leikhlé til að reyna að ná áttum.
 
Allt kom fyrir ekki. Fjölnir jók bara á forystuna og með frábærri nýtingu eða 15/20 í fjórðungnum. 5 sóknarfráköst bættust í sarpinn og höfðu Tindastólsmenn látið eftir 22 slík þegar flautan gall í lok leiks. 17 stiga sætur sigur heimamanna og Stólarnir uppskera sitt fyrsta tap.
 
Hjá Fjölni voru Páll Fannar og Emil Þór frábærir. Keyrðu látlaust á körfuna og áttu saman yfir helming stiga liðsins. Emil með 24 og Páll með 22. Daron Sims átti fínan leik fyrir Fjölni með 17 stig og 13 fráköst, þar af 7 í sókn. Hann tók þó full mikið af skotum fyrir utan teig en var skotheldur í teignum. Davíð Ingi Bustion átti frábæra innkomu. Spilaði aðeins 12 mínútur og á þeim stutta tíma tætti hann niður 10 fráköst, þar af 5 í sókn. Þar fer leikmaður sem felur sig á tölfræðiskýrslunni en spilar með öllu hjarta og skilur allt eftir á gólfinu.
 
Hjá Tindastóli var fátt um fína drætti. Helgi Rafn dró vagninn með 29 stig og 9 fráköst. Proctor virðist eiga erfitt með að spila gegn Fjölni því hann skoraði aðeins 10 stig og náði einungis 7 skotum á þeim 26 mínútum sem hann spilaði. Í fyrri leiknum gegn Fjölni skoraði hann 9 stig með 3/9 nýtingu. Flake var skömminni skárri þó þeir hafi báðir lent snemma í villuvandræðum. 
 
Leikurinn var skelfilega dæmdur, svo ekki sé meira sagt. Allt frá byrjun höfðu blessaðir dómararnir enga stjórn á ástandinu og leit allt út fyrir að þeir væru að þreyta frumraun sína með flautuna í þessum leik. Hræðilegir dómar voru oft á tíðum “leiðréttir” með síður skárri dómum hinu megin.
 
Fréttir
- Auglýsing -