spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaFjölnir með nauman sigur í spennandi leik

Fjölnir með nauman sigur í spennandi leik

Fjölnir tók á móti Vestra í 1. deild karla í kvöld. Fyrir leikinn var Fjölnir í 4. sæti og Vestri í 2. sæti. Bæði liðin hafa tapað fyrir Þór Akureyri og þegar liðin mættust á Jakanum í október unnu Fjölnir góðan sigur eftir jafnan leik. Besti leikmaður Vestra Nemanja Knezevic var ekki með en hann varð eftir fyrir vestan með einhverja pest.

Heimamenn byrjuðu betur og komust í 7 – 0 áður en gestirnir komust á blað. Vestri náði að komast vel af stað í kjölfarið og fyrsti leikhluti var jafn og spennandi. Heimamenn nældu sér á fimm villur á meðan gestirnir fengu engar í leikhlutanum. Staðan að loknum fyrsta leikhluta 24 – 21.

Vestri byrjaði annan leikhluta betur og komust fram úr Fjölni, þeir náðu þó aldrei að ná neinu alvöru forskoti á Fjölnir sem hékk í þeim og gerðu vel að missa leikinn ekki í mikinn mun. Staðan í hálfleik 46 – 47.

Bæði liðinn byrjuðu þriðja leikhluta af hörku, þau skiptust á að vera í forystu sem var þó aldrei meiri en 4 stig. Hnífjafn leikhluti, staðan að honum loknum 70 – 70.

Fjórði leikhluti byrjaði eins og sé þriðji endaði. Liðin skiptust á að skora og leikurinn hnífjafn og það spennandi að blaðamaður var farinn að horfa nagandi augum á neglurnar. Vestra menn náðu mest 6 stiga forystu um miðbik leikhlutans en tveir svellkaldir þristar Fjölnis og tvö stig til viðbótar komu Fjölni yfir. Liðin skiptust á að skora og  þegar innan við mínúta var eftir var allt jafnt 93 – 93. Fjölnir setti niður 2 stig, dómararnir kölluðu ekki augljósa villu þar sem brotið var á Nebosja Knezevic og Fjölnir fóru í sókn. Brotið var á þeim og Srdan Stojanovic setti niður bæði vítin og kom Fjölnir 4 stigum yfir þegar 9,4 sekúndur voru eftir af leiknum. Vestri tók leikhlé en náðu ekki að skora og Srdan Stojanovic fór aftur á línuna eftir að brotið hafði verið á honum. Hann hitti úr seinna skotinu og leik því lokið með sigri Fjölnismanna 98  – 93.

Byrjunarlið:
Fjölnir: Anton Olonzo Grady, Róbert Sigurðsson, Vilhjálmur Theodór Jónsson, Andrés Kristleifsson og Srdan Stojanovic.
Vestri: Ingimar Aron Baldursson, Gunnlaugur Gunnlaugsson, Nebosja Knezevic, Hugi Hallgrímsson og André Huges.

Þáttaskil:
Þetta var hörkuspennandi leikur tveggja mjög jafnra liða. Mistök dómara sem áttu heilt yfir ágætan leik á lokasekúndum gerðu út um leikinn.

Tölfræðin lýgur ekki:

Fjölnir var að frákasta miklu betur en Vestri. 15 sóknarfráköst á móti 3 frá Vestra. Heildarfráköst 45 – 29. Auka tækifæri í sókn sem Fjölnir nýtti vel í fjarveru Nemanja Knezevic.

Hetjan:
Vilhjálmur Theodór Jónsson átti fínan leik, skilaði 18 stigum og 17 framlagspunktum. Anton Olonzo Grady var frábær, hann var með tröllatvennu 30 stig, 20 fráköst og 45 framlagspunkta. Hjá gestunum var Nebosja Knezevic með 24 stig, 8 stoðsendingar og 22 framlagspunkta. André Huges átti mjög góðan leik, skoraði 43 stig og var með 43 framlagspunkta.

Kjarninn:
Þessar örfáu hræður sem sáu sér fært að mæta á leikinn fengu nóg fyrir peninginn. Þetta eru tvö jöfn lið sem bæði hefðu getað farið heim með sigurinn í kvöld og stemningin á áhorfendapöllunum var ekki í takt við hversu spennandi og skemmtilegur leikurinn var. Þetta var skemmtilegur leikur og það var leiðinlegt að mistök dómara hefðu gert út um hann.

Tölfræði

Viðtöl:

Fréttir
- Auglýsing -