Fjölnir tóku á móti Haukum í Dalhúsum í dag í 19. umferð Dominosdeildar kvenna. Fjölnisstúlkur sigruðu örugglega 78-66 og með svona áframhaldandi spilamennsku eiga þær góða von um að koma sér úr fallsætinu.
Byrjunarlið Fjölnis: Hrund Jóhannsdóttir, Heiðrún Harpa Ríkharðsdóttir, Fanney Lind Guðmundsdóttir, Bergdís Ragnarsdóttir og Britney Jones.
Byrjunarlið Hauka: Margrét Rósa Hálfdanardóttir, Gunnhildur Gunnarsdóttir, María Lind Sigurðardóttir, Jóhanna Björk Sveinsdóttir og Siarre Evans.
Jafnræði var með liðunum á fyrstu fjórum mínútum leiksins eða allt þangað til að Britney Jones kom Fjölni í 8-5. Þá fór Fjölnir að síga aðeins fram úr. Þá tók við 10-3 kafli hjá Fjölni þar sem að Bergdís Ragnarsdóttir skoraði 7 stig og Heiðrún Harpa Ríkharðsdóttir skellti niður þrist. Haukum gekk illa að setja niður skotin sín og voru einungis með 25% skotnýtingu í fyrsta leikhlutanum. Fjölnir miklu sterkari og leiddu með 12 stigum, 25-13.
Áfram gekk Haukum illa að setja niður skotin sín, það var ekki fyrr en í sjöundu skottilraun sem boltinn vildi loksins niður en þá átti Jóhanna Björk Sveinsdóttir sniðskot. En við það hresstust Haukastúlkur aðeins og sigruðu þær leikhlutann með sjö stigum og staðan því 35-30.
Fjölnisstúlkur mættu mjög ákveðnar til leiks í seinni hálfleik og kafsigldu Hauka 12-3 á fyrstu þremur mínútunum þar sem að meðal annars Britney Jones og Fanney Lind Guðmundsdóttir settu sitt hvorn þristinn. Þá kveiknaði aftur í Haukum og Siarre Evans og Margrét Rósa Hálfdanardóttir skelltu niður hvor sínum þrist ásamt því að Margrét Rósa bætti við tveimur stigum til viðbótar. Munurinn kominn niður í sex stig, en Fjölnir létu þetta ekki á sig fá og náðu að auka muninn aftur og leiddu með ellefu stigum að loknum leikhlutanum, 57-46.
Fjölnir gaf Haukum ekki færi á að komast aftur inn í leikinn og voru þar fremstar í flokki Britney Jones sem skoraði 11 stig í leikhlutanum og Bergdís Ragnarsdóttir var með 8 stig, 2 fráköst, 2 stoðsendingar ásamt 2 stolnum boltum. Fjölnir því nokkuð öruggur sigurvegari, 78-66.
Stigahæstar hjá Fjölni voru: Britney Jones 29 stig/7 fráköst/10 stoðsendingar, Bergdís Ragnarsdóttir 23 stig/7 fráköst/4 stolnir boltar, Fanney Lind Guðmundsdóttir 13 stig/11 fráköst.
Stigahæstar hjá Haukum voru: Margrét Rósa Hálfdanardóttir 24 stig, Siarre Evans 20 stig/18 fráköst, Gunnhildur Gunnarsdóttir 10 stig.
Leikmenn leiksins: Britney Jones og Bergdís Ragnarsdóttir
Mynd/ Karl West
Umfjöllun/ K. Bergmann