Fjölnir tryggði sér í kvöld sæti í úrvalsdeild karla í körfuknattleik í haust eftir 81-98 sigur á Hetti í öðrum leik liðanna. Þjálfari Fjölnis segir liðið vera komið aftur á þann stað sem það á heima.
„Það er frábær tilfinning að vera kominn aftur í úrvalsdeildina. Ég er að leiðrétta eigin mistök, við áttum aldrei að falla,” sagði Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Fjölnis, í samtali við Austurfrétt eftir 81-98 sigur á Hetti í kvöld.
Með sigrinum tryggði Fjölnir sér úrvalsdeildarsæti á næstu leiktíð en liðið vann fyrri leik liðanna í úrslitaeinvíginu á þriðjudag.
Leikurinn í kvöld þróaðist á svipaðan hátt og sá fyrri. Um miðjan annan leikhluta sigldi Fjölnir framúr og var 34-50 yfir í hálfleik. Sú forusta var aldrei í hættu nema rétt undir lokin þegar Höttur minnkaði muninn í sex stig. Fjölnismenn héldu út og kafsigldu Egilsstaðaliðið á síðustu mínútunum.



