spot_img
HomeFréttirFjölnir Íslandsmeistari í drengjaflokki

Fjölnir Íslandsmeistari í drengjaflokki

 
Fjölnismenn eru Íslandsmeistarar í drengjaflokki eftir öruggan 86-61 sigur á Snæfell/Skallagrím í úrslitaleik liðanna í Smáranum í Kópavogi. Fjölnismenn tóku frumkvæðið snemma í leiknum og voru ávallt skrefinu á undan Snæfell/Skallagrím. Tómas Heiðar Tómasson fór á kostum í liði Fjölnis í dag með 34 stig, 6 fráköst og 3 stolna bolta og var valinn besti maður leiksins.
Tómas Heiðar Tómasson opnaði leikinn fyrir Fjölnismenn með þriggja stiga körfu en það var síðan Kristján Andrésson sem varð fyrstu á blað í liði Snæfells/Skallagríms (hér eftir Snægríms) er hann smellti niður þrist og minnkaði muninn í 7-3. Tómas Heiðar gerði 8 af 10 stigum Fjölnis í leiknum en Grafarvogspilar voru harðákveðnir og og leiddu 18-9 eftir fyrsta leikhluta með sterkum varnarleik.
 
Vörn Fjölnismanna var áfram fyrnasterk í öðrum leikhluta og liðsmenn Snægríms í mesta basli með að skora. Skotnýting vestlendinga var hræðileg enda voru mörg hver erfið gegn sterkri vörn Fjölnis. Tómas Heiðar jók muninn í 28-13 fyrir Fjölni með þriggja stiga körfu en liðin gengu svo til hálfleiks í stöðunni 35-22 Fjölni í vil.
 
Tómast Heiðar Tómasson var með 14 stig í liði Fjölnis í hálfleik en hjá Snægrím voru þeir jafnir Egill, Kristján og Sigurður allir með 5 stig.
 

Ingi Þór Steinþórsson setti sína menn í svæðisvörn í upphafi síðari hálfleiks og gekk hún þokkalega gegn Fjölni. Friðrik Karlsson fékk snemma sína fjórðu villu í liði Fjölnis og hélt á bekkinn og fyrir vikið fór Snægrímur meira í teiginn. Kristján Andrésson var svo laus fyrir utan og minnkaði muninn í 45-37 með þrist fyrir Snægrím en Kristján er upprísandi skytta og má ekki hafa augun af þessum leikmanni eitt augnablik.

 
Fjölnismenn svöruðu þessum þrist frá Kristjáni með tveimur þristum í röð, þar voru Tómas Heiðar og Arnþór Freyr að verki og Fjölnismenn leiddu 53-41 fyrir lokasprettinn og víst að liðsmenn Snægríms þyrftu að gyrða sig í brók ef þeir ætluðu sér nærri Fjölni.
 
Sama hvað liðsmenn Snægríms reyndu þá áttu Fjölnismenn ávallt svör. Fjölnir byrjaði fjórða leikhluta 15-8 og staðan 68-49 eftir rétt rúmlega þriggja mínútna leik í fjórða leikhluta. Tómas Heiðar hélt áfram að raða fyrir Fjölni og allt gekk upp hjá gulum, sterk vörn, flottur liðsbolti og þristarnir að detta. Að lokum höfðu Fjölnismenn svo öruggan sigur
 
Tómas Heiðar Tómasson gerði 34 stig í leiknum og setti niður 8 af 18 þriggja stiga skotum sínum í leiknum. Þá var Tómas einnig með 6 fráköst og 3 stolna bolta í liði Fjölnis. Ægir Þór Steinarsson átti einnig glimrandi dag með Fjölni en hann gerði 21 stig, tók 11 fráköst og gaf 6 stoðsendingar.
 
Hjá Snæfell/Skallagrím voru þeir Egill Egilsson og Kristján Andrésson báðir með 16 stig og Trausti Eiríksson gerði 4 stig og tók 17 fráköst.
 
Ljósmyndir/ Tomasz Kolodziejski
Umfjöllun: Jón Björn Ólafsson – [email protected]

  

Fréttir
- Auglýsing -