spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaFjölnir ísaði Vestra á Jakanum

Fjölnir ísaði Vestra á Jakanum

Vestri og Fjölnir mættust á Jakanum á Ísafirði í gærkvöldi í 1. deild karla. Í spá þjálfara og formanna deildarinnar hafði Vestra verið spáð fimmta sæti í vetur á meðan Fjölni hafði verið spáð öðru sæti. Vestri hafði byrjað tímabilið betur helgina áður með öruggum 33 stiga sigri á Snæfell á meðan Fjölnir hafði tapað fyrir sterku liði Þórs frá Akureyri.

Gangur leiksins
Eftir jafna byrjun þá hófu Fjölnismenn að síga fram úr undir lok fyrsta leikhluta og náðu mest 11 stiga forustu, 31-42, þegar sjö mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Þegar fjórar og hálf mínúta voru eftir af fyrri hálfleik, þá tók Nebojsa Knezevic yfir leikinn og skoraði 13 af 20 stigum Vestra á þeim kafla og kom vestanmönnum aftur í leikinn. Þriggja stiga karfa Andrésar Kristleifssonar rétt áður en klukkan gall tryggði þó Fjölni eins stigs forustu í hálfleik, 55-56. Jafnræðið hélt áfram fram undir miðjan fjórða leikhluta þegar Fjölnis menn fóru að síga fram úr. Mest náði Fjölnir 10 stiga forustu og náðu heimamenn aldrei að brúa það bil. Gestirnir fóru því heim með sanngjarnan 92-101 sigur í farteskinu.

Framtíðin
Hinn 16 ára Hugi Hallgrímsson minnti á lofthæfileika sína með því að verja þrjú skot Fjölnismanna en hann skilaði einnig 4 stigum og 5 fráköstum í öðrum byrjunarliðsleik sínum í röð. Tvíburabróðir hans, Hilmir, setti svo tvö stig á um 8 mínútum á meðan hinn 19 ára gamli Rafn Kristján Kristjánsson skoraði 4 stig fyrir Fjölni á 12 mínútum.

Maður leiksins
Anton Grady hjá Fjölni átti flottan leik fyrir sína menn en hann skilaði 26 stigum, tók 17 fráköst og gaf 5 stoðsendingar.

Tölfræðin
Fjölnismenn nýttu sér vel glufur í svæðisvörn Vestra framan af og settu niður samtals 17 þriggja stiga skot í leiknum á móti einungis 8 hjá Vestra. Fjórir leikmenn Fjölnis settu niður þrjár eða fleiri þriggja stiga körfur og var Róbert Sigurðsson þar efstur með fjórar.

Kjarninn
Það er óhætt að segja að leikurinn hafi verið með jafnasta móti lengst af en liðin skiptust 14 sinnum á forustu auk þess sem 9 sinnum var jafnt. Fjölnismenn áttu þó meira eftir á tanknum undir lok fjórða leikhluta og unnu að lokum 9 stiga sigur eins og fyrr segir.

Hjá heimamönnum var Nebojsa Knezevic allt í öllu í fyrri hálfleik, en í honum skoraði hann 27 af 30 stigum sínum. Hann tók einnig 8 fráköst og gaf 8 stoðsendingar, og er jafn samherja sínum Ingimari Baldurssyni, sem var með 10 stoðsendingar, í efsta sæti yfir stoðsendingahæstu menn deildarinnar með 8.5 stoðsendingar að meðaltali í leik. Fóstbróðir hans, Nemanja Knezevic, skilaði sínum hefðbundna leik með 20 stigum, 18 fráköstum og 6 stoðsendingum á meðan þýski Bandaríkjamaðurinn Andre Hughes nýtti stökkskot sín vel og skoraði 24 stig.

Hjá Fjölni var Anton Grady sem fyrr segir stigahæstur með 24 stig en 17 fráköst hans þýddu að hann leiðir enn deildina með 19.0 fráköstum að meðaltali í leik, rétt á undan Nemanja sem kemur næstur með 18.0. Vilhjálmur Theodór Jónsson átti einnig skínandi leik fyrir Fjölni og skilaði 17 stigum á meðan Srdan Stojanovic skoraði 15 og Róbert Sigurðsson 14.

Tölfræði leiksins

Mynd: Bára Dröfn / Úr safni

Fréttir
- Auglýsing -