spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaFjölnir hafði sigur á Skallagrím

Fjölnir hafði sigur á Skallagrím

Liðin í efstu deilum landsins eru á fullu þessa dagana að undirbúa sig fyrir komandi átök. Nokkur fjöldi af æfingaleikjum eru í gangi og er spennandi að sjá hvernig liðin koma undan sumri.

Fjölnir sem leikur í 1. deild kvenna á komandi leiktíð mætti liði Skallagríms í Borgarnesi í gær. Leikurinn var hnífjafn en Fjölniskonur höfðu að lokum betur og innsigluðu sigurinn með góðum endasprett. Lokastaðan 55-67 fyrir Fjölni.

Lexi Petersen heldur áfram að spila frábærlega líkt og hún gerði fyrir KR og Val á síðustu leiktíð. Hún var með þrefalda tvennu í leiknum og endaði með 17 stig, 10 fráköst og 10 stoðsendingar. Margrét Ósk Einarsdóttir var stigahæst með 22 stig og hitti frábærlega. Þá voru Sara Diljá og Erla Kristins með sjö stig hvort.

Heimakonur í Skallagrím voru einungis með sex leikmenn á skýrslu en liðið samdi á dögunum við tvo erlenda leikmenn til viðbótar sem eiga enn eftir að koma til liðsins. Bryesha Blair var stigahæst með 16 stig og var auk þess með 13 fráköst og 6 stoðsendingar. Blair hitti hinsvegar afleitlega í leiknum eða 25% í 28 skotum sínum. Maja Michalska var einnig með 16 stig og var með góða skotnýtingu. Sigrún Sjöfn Ámundadóttir var með 15 stig og Árnína Lena með 7 stig.

Ert þú með úrslit úr æfingaleik? Endilega sendu okkur línu á [email protected]

Fréttir
- Auglýsing -