spot_img
HomeFréttirFjölnir bikarmeistari 10. flokks drengja

Fjölnir bikarmeistari 10. flokks drengja

Eftir ævintýralegan lokafjórðung stóð Fjölnir uppi sem sigurvegari í útslitaleik 10. flokks drengja í Maltbikarkeppninni en liðið sigraði Stjörnuna í kvöld með 61 stigi gegn 60. Stjarnan náði yfirhöndinni á upphafsmínútum leiksins og leiddi allt þar til 2 sekúndur voru eftir af leiknum. Fannar Elí Hafþórsson setti þá niður þriggja stiga skot fyrir Fjölni og fékk víti að auki. Vítið rataði rétta leið og tryggði Fjölnir sér sætan eins stigs sigur.  

Fyrir leik
Fyrir úrslitaleikinn í kvöld höfðu liðin í tvígang spilað á móti hvoru öðru og hafði Stjarnan sigur í báðum leikjum. Fyrri leikinn sigruðu þeim með 3 stigum, 56-59, en síðari leikinn unnu þeir nokkuð örugglega, 50-32.

Gangur leiks
Stjarnan byrjaði leikinn mun betur og leiddu þeir með 13 stigum eftir fyrsta fjórðunginn. Magnús Helgi Lúðvíksson reyndist Fjölni erfiður í byrjun fjórðungsins og var hann kominn með 7 stig eftir rúmlega 3 mínútna leik. Á sama tíma gekk hvorki né rak hjá Fjölni í sókninni og skotnýtin þeirra í fyrsta fjórðungi einungis 18%.

Fjölnisstrákar komu ákveðnir til leiks í öðrum fjórðungi, náðu að loka betur á Stjörnuna og nýttu skot sín betur. Munurinn kominn niður í 4 stig um miðjan leikhlutann áður en Stjarnan tók við sér og jók muninn aftur í 10 stig fyrir hálfleik.

Liðin skiptust á að skora í þriðja leikhluta en nokkuð jafnræði var með þeim og leiddi Stjarnan með 12 stigum fyrir lokafjórðunginn. Fjölnir mættu mun betur stemmdir til leiks í fjórða leikhluta og höfðu fljótlega náð að minnka forskot Stjörnunnar niður í 5 stig en þá komu 4 stig í röð frá Stjörnunni og róðurinn orðinn þungur fyrir Fjölni. Með mikilli baráttu kom Fjölnir muninum niður í 4 stig þegar rúm mínúta var eftir af leiknum.

Við tók spennandi lokamínúta þar sem hvorugt lið gaf tommu eftir. Fjölnisstrákar brutu á Orra Gunnarssyni og sendu hann á vítalínuna, hann setti niður annað vítið og jók með því forystu Stjörnunnar í 5 stig. Ólafur Ingi svaraði fyrir Fjölni með því að setja niður erfitt skot inni í teig og minnkaði muninn niður í 3 stig. Stjarnan tók langa sókn þar sem boltinn gekk vel á milli manna allt þar til Fannar Elí Hafþórsson stal boltanum fyrir Fjölni og geysist upp völlinn. Hann fór upp í þriggja stiga skot og freistaði þess að jafna leikinn. Skotið rataði rétta leið og brotið var á honum í leiðinni. Vítið rataði einnig rétta leið og Fjölnir komið yfir í fyrsta skiptið síðan á upphafsmínútu leiksins. Tíminn var of naumur fyrir Stjörnuna til að svara fyrir sig og Fjölnir fagnaði bikarmeistaratitli í 10. flokki drengja árið 2018.

Tölfræðin 
Fjölnir var með örlítil lakari skotnýtingu en Stjarnan í leiknum eða 35% á móti 36% en þeir tóku 65 skot á móti 58 skotum Stjörnunnar. Stjarnan tapaði leiknum þrátt fyrir að taka mun fleiri fráköst en Fjölnir eða 50 fráköst á móti 38 fráköstum.

Maður leiksins
Fannar Elí Hafþórsson var valinn maður leiksins en hann skoraði 16 stig, tók 7 fráköst, stal 7 boltum og gaf 5 stoðsendingar á þeirri 31 mínútu sem hann spilaði. Hann stal boltanum á mikilvægu augnabliki í lok leiksins og setti niður gríðarlega mikilvæg stig sem tryggðu Fjölni bikarmeistaratitilinn. 

Tölfræði leiks

Myndasafn úr leik

Fréttir
- Auglýsing -