spot_img
HomeFréttirFjölnir áfram í bikarnum: Jón ,,Leynivopn” Sverrisson svaraði kalli þjálfarans

Fjölnir áfram í bikarnum: Jón ,,Leynivopn” Sverrisson svaraði kalli þjálfarans

 
Fjölnismenn tóku Reykjavíkurrimmuna í 16 liða úrslitum Poweradebikarsins í kvöld. Lærisveinar Örvars Kristjánssonar gerðu þá góða ferð í Hellinn með 90-112 sigri á ÍR sem með daufri byrjun sáu gula og bláa gesti sína skora 38 stig í fyrsta leikhluta! Ben Stywall var stigahæstur hjá Fjölni í kvöld með 24 stig, 7 fráköst, 6 stoðsendingar og 5 stolna bolta. Ægir Þór bætti við 21 stig og 11 stoðsendingum en Kelly Beidler var atkvæðamestur í liði ÍR með 32 stig, 14 fráköst og 7 stoðsendingar. Jón Sverrisson var í byrjunarliði Fjölnis í kvöld og kom þar sterkur inn og verður þekktur sem ,,Leynivopnið” héðan í frá. ÍR gerði heiðarlega tilraun í þriðja leikhluta til að jafna um Fjölni en áttu ekki bensín í lokasprettinn og því eru Fjölnismenn komnir í 8-liða úrslit keppninnar.
Gestirnir úr Grafarvogi byrjuðu vel og settu niður þrist í fyrstu sókn og stálu boltanum svo strax af heimamönnum, einbeittir og grimmir Fjölnismenn og fyrir vikið virkuðu ÍR-ingar sem áhorfendur. Skömmu síðar var boðið upp á tvo Fjölnisþrista í röð og hraðaupphlaup þar í kjölfarið og stóðu leikar 9-20 svo Gunnar Sverrisson sá sig tilneyddan til að taka leikhlé fyrir ÍR og tæpar fimm mínútur liðnar af leiknum.
 
Jón Sverrisson var í byrjunarliði Fjölnis í kvöld og tók þar stöðu Sindra Kárasonar. Jón þakkaði Örvari þjálfara sínum traustið með afbragðs frammistöðu í fyrri hálfleik þar sem hann gerði 12 stig og tók 3 fráköst.
 
Kelly Beidler hristi aðeins upp í heimamönnum með þriggja stiga körfu og minnkaði muninn í 24-33 en gestirnir leiddu 27-38 eftir fyrsta leikhluta þar sem þeir brunuðu vel í bakið á ÍR sem vissu vart hvaðan á sig stóð veðrið. Ekki skemmdi heldur skotnýting Fjölnismanna fyrir með 7 af 9 þristum sem rötuðu rétta leið á fyrstu 10 mínútunum.
 
Sveinbjörn Claessen opnaði annan leikhluta með þriggja stiga körfu fyrir ÍR og staðan því 30-38 Fjölni í vil. Áhlaup heimamanna leit vel út í fyrstu en Fjölnir hnoðaði þá í tíu stiga bunu og skyndilega hoppaði stigataflan í Hellinum úr 34-40 í 34-50 og ekki laust við að það kæmi við kauninn í Breiðhyltingum.
 
Staðan í hálfleik var svo 47-66 Fjölni í vil þar sem Ben Stywall var með flautukörfu fyrir Fjölni í teignum og gulir sjóðheitir með 9 af 13 í þristum í fyrri hálfleik og fjórir leikmenn liðsins búnir að skora 12 stig eða meira á 20 mínútum og Ægir Þór þeirra mest eða 14 stig og 8 stoðsendingar. Hjá ÍR var Nemanja Sovic með 12 stig og Gunnar Sverrisson þurfti ekki að fjölyrða um frammistöðu sinna manna inni í klefa í hálfleik, heimamenn voru c.a. 30 sekúndur inni í klefa og voru svo komnir aftur úr á völlinn, gráir fyrir járnum.
 
Eins og við var að búast hóf ÍR að saxa á forskot Fjölnis, það var eiginlega ekki annað í boði eftir dapra frammistöðu heimamanna í fyrri hálfleik. Kelly Beidler, Nemanja Sovic og Níels Dungal fóru þá mikinn sem og Hjalti Friðriksson sem m.a. varði þrjú skot í röð í einni og sömu Fjölnissókninni! ÍR vatt sér í 1-3-1 svæði með Beidler og allan hans faðm uppi á toppi og unnu þannig leikhlutann 25-12 og staðan 72-78 fyrir fjórða og síðasta leikhluta. Mögnuð frammistaða heimamanna og allt stefndi í magnaðan lokasprett en Örvar og Fjölnismenn höfðu annað í huga.
 
Framan af fjórða leikhluta átti ÍR erindi í gesti sína en þegar leið á sást að Fjölnismenn ætluðu sér ekki að gefa 8-liða úrslitin eftir, gestirnir þéttu vörnina og ÍR gekk illa að finna glufur á 2-3 svæðisvörn þeirra og þá féll sjálfstraust þeirra í sókninni um sjálft sig. Fjölnir kláraði því dæmið 90-112 og eru komnir í 8-liða úrslit.
 
 
 
Dómarar leiksins: Sigmundur Már Herbertsson, Kristinn Óskarsson og Eggert Þór Aðalsteinsson.
 
Myndasafn og umfjöllun: Jón Björn Ólafsson – [email protected]  
Fréttir
- Auglýsing -